Viðskipti innlent

Fjármálastjórar þurfa þekkingu á sífellt fleiri sviðum

Schwarzkopf segir bandaríska kollega sína merkilega oft spyrja að því hvað hann sé eiginlega að vilja til Íslands. Hann segist hins vegar njóta þess að vera hér og kunna meira að segja að meta veðrið enda hafi hann yfirleitt kosið að ferðast til norðlægra slóða á ferðalögum sínum.
Schwarzkopf segir bandaríska kollega sína merkilega oft spyrja að því hvað hann sé eiginlega að vilja til Íslands. Hann segist hins vegar njóta þess að vera hér og kunna meira að segja að meta veðrið enda hafi hann yfirleitt kosið að ferðast til norðlægra slóða á ferðalögum sínum. Fréttablaðið/Anton
@Mark.Meginmál Upphafsstafur:Starf endurskoðenda og annarra starfsmanna á fjármálaskrifstofum fyrirtækja er að taka breytingum. Aukið umfang og flækjustig rekstrar leiðir af sér kröfu um fjölbreyttari áhættustjórnun en áður og í sífellt meiri mæli stuðst við tölulega mælikvarða þegar frammistaða fyrirtækja er metin. Þetta segir dr. David Schwarzkopf, stjórnandi MBA-náms við McCallum Graduate School Bentley-háskóla í Bandaríkjunum, en hann er gestaprófessor við Háskólann í Reykjavík þar sem hann kennir endurskoðun.

Schwarzkopf er með doktorsgráðu í endurskoðun frá Connecticut-háskóla í Bandaríkjunum auk þess að hafa lokið stjórnsýslunámi við Harvard-háskóla. Hann hefur í rannsóknum sínum lagt áherslu á félagsfræði endurskoðunar og fjármála auk þess að velta fyrir sér heppilegum mælikvörðum á frammistöðu fyrirtækja.

Markaðurinn hitti Schwarzkopf og ræddi við hann um þá skörun sem hann segir að sé orðin á milli starfs fjármálastjórans og upplýsingatæknistarfa.

Gagnaflóðið breytir mörgu„Mínar rannsóknir hafa að miklu leyti snúist um félagsfræði endurskoðunar og endurskoðenda. Í minni kennslu fjalla ég því um hvað það þýðir að vinna við endurskoðun og fjármál og það hvers einstaklingar og fyrirtæki vonast til að endurskoðendur leggi af mörkum til fyrirtækis, til viðskiptavina og til samfélagsins," segir Schwarzkopf og heldur áfram: „Þá fjalla ég um muninn á því að starfa fyrir eitt af stóru endurskoðunarfyrirtækjunum og þess að starfa sjálfstætt eða innan fyrirtækis í annars konar rekstri. Í þessari stétt beinist athyglin yfirleitt að stóru endurskoðunarfyrirtækjunum en það kann að gefa villandi mynd af geiranum því einungis minnihluti endurskoðenda vinnur fyrir eitt þeirra."

Í kennslu sinni fjallar Schwarzkopf einnig talsvert um það hvernig þarfir fyrirtækja og viðskiptavina þeirra hafi verið að breytast með sífellt fullkomnari tölvutækni. Segir hann að á síðustu árum hafi margt breyst sem geri það að verkum að kröfur til endurskoðenda og fjármálastjóra hafa breyst.

„Það eru orðin einhver 40 ár síðan fyrstu greinarnar um áhrif upplýsingatækni á endurskoðendur birtust. Þær fjölluðu um það hvernig tölvutæknin myndi gera alla reikningsvinnu fljótlegri þannig að þeir sem vinna við tölur kæmu meira í verk," segir Schwarzkopf og heldur áfram: „Sú þróun er vitaskuld löngu búin að eiga sér stað en það sem hefur gerst núna er að reikningsgeta nýjustu tölva hefur skilið eftir sig gríðarlegt magn alls konar tölulegra gagna. Og þetta flóð gagna er að breyta fjölmörgum störfum, þar á meðal starfi endurskoðandans og fjármálastjórans."

Schwarzkopf segir að gagnaflóðið hafi gefið fyrirtækjum tækifæri til að nota mun fjölbreyttari mælikvarða á árangur í rekstri en áður var mögulegt. Þá hafi mælikvörðum sem líta má á sem viðvörunarbjöllur einnig fjölgað til muna.

„Af þessum sökum er í sífellt meiri mæli krafist þess að endurskoðendur geti ekki bara skilið töluleg gögn, heldur einnig að þeir geti áttað sig á tengslum ólíkra gagnasafna og hvernig hin ýmsu gögn geta komið að gagni við rekstur viðkomandi fyrirtækis. Það er því að verða til mikil eftirspurn eftir fólki sem getur fundið mynstur í stórum gagnasöfnum og áttað sig á því hvernig mynstrin varpa nýju ljósi á reksturinn. Þá er einnig eftirsóknarvert að fjármálastjórar og aðrir yfirmenn geti spurt sig: Gott og vel, við viljum gera þetta, hvaða mælikvarði væri hentugur til að meta árangurinn? Og einnig: Hvernig gögn getum við nálgast eða safnað saman sem myndu hjálpa okkur að skilja áhrifin á reksturinn? Þá snýst þetta ekki einungis um að skoða fjármálalegar kennitölur heldur viðeigandi mælikvarða á frammistöðu í hvert skipti," segir Schwarzkopf og bætir við að allt eins geti verið um að ræða gögn fengin úr könnunum sem mæli ánægju viðskiptavina eða þá gögn úr fullkomnum mælitækjum sem mæli skilvirkni framleiðslu viðkomandi fyrirtækis.

ör þróun í áhættustjórnunAð sögn Schwarzkopfs hefur þessi þróun verið hvað örust í tengslum við áhættustjórnun. „Ég hef reyndar talið það rangnefni þar sem það gefur til kynna að það sé hægt að stjórna áhættu sem liggur í hlutarins eðli að er ekki hægt. Það er hins vegar hægt að vera meðvitaður um áhættu og búa sig undir að bregðast við henni," segir Schwarzkopf og bætir við: „En fyrirtæki, aðallega stór fyrirtæki en þó einnig meðalstór fyrirtæki og jafnvel annars konar stofnanir svo sem háskólar, eru nú sífellt meira að styðjast við eins konar einkunnaspjöld sem oft eru kölluð mælaborð. Slík mælaborð eiga að veita yfirlit yfir þá áhættuþætti sem geta haft áhrif á fyrirtæki. Og aftur, þetta eru ekki einungis fjármálalegir mælikvarðar heldur byggja þeir á bæði eigindlegum og megindlegum gögnum. Hugmyndin er sú að stjórnandi geti horft á mælaborðið og áttað sig á, til dæmis, að framleiðsluferlar séu hagkvæmir en að ánægja viðskiptavina með vöruna sé minni en búist var við. Þannig að við hlutverk endurskoðenda og annarra í fjármálastörfum er að bætast þessi vinna. Að finna góða mælikvarða og gögn sem varpa ljósi á gangverk viðkomandi fyrirtækis og þá áhættuþætti sem koma því við."

Engin þekking orðin úreltSchwarzkopf segir að þessi nálgun við að mæla frammistöðu fyrirtækja og meta áhættuþætti geti gert fyrirtæki hagkvæmari. „Þetta getur gert fyrirtæki hagkvæmari, en til þess að svo megi verða er mikilvægt að einhver starfsmaður hafi fullkomna yfirsýn og stjórni því hvernig brugðist er við þeim mælingum sem fyrirtækið er að fylgjast með. Og þessi starfsmaður er æ oftar fjármálastjórinn þar sem markmið fyrirtækja er jú yfirleitt að reyna að nýta fjármuni sína sem best og skila hagnaði," segir Schwarzkopf. „Þannig að lexían er í rauninni sú að starfsmenn í fjármáladeildum fyrirtækja munu framvegis þurfa að sanka að sér þekkingu á fleiri sviðum en hingað til. Það þýðir því miður ekki að þeir geti sleppt einhverju öðru í staðinn. Krafan er alltaf um viðbótarþekkingu þannig að fjármálafólk verður áfram að hafa góða þekkingu á fjármálum og reikningsskilum auk góðra samskiptahæfileika. En nú bætist sem sagt þetta við; það að geta borið kennsl á heppilega mælikvarða á árangur í rekstri og vita hvernig hægt er að nálgast gögn sem geta varpað ljósi á stöðuna."

Að lokum leggur Schwarzkopf áherslu á að nýjar kröfur þýði ekki að þekking fólks sem nú er á vinnumarkaði sé orðin úreld. Síður en svo. „Oft þegar rætt er um breytingar eða þróun hugsar fólk með sér að breytingarnar hafi verið svo örar að manns eigin hæfileikar séu skyndilega ekki jafn verðmætir og áður. Slík upplifun á sjaldnast rétt á sér," segir Schwarzkopf. „Auk þess eru vitaskuld fjölmargar leiðir til að kynna sér það nýjasta sem er að gerast í eigin fagi. Mörg stéttarfélög gefa út fagtímarit þar sem fjallað er um nýjustu fræðin í viðkomandi geira. Háskólar halda málstofur um þessi efni og svo framvegis. Svo er líka önnur leið sem er einfaldlega að tryggja að þessi þekking sé til staðar innan þíns fyrirtækis með því að ráða inn fólk sem hefur þá kunnáttu sem þú ert að leita eftir. Sem væri í þessu tilfelli fólk sem getur nýtt sér gögn og mælikvarða og áttað sig á því hvernig þau koma rekstri fyrirtækisins við."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×