Viðskipti innlent

Raunhækkun íbúðaverðs 3,2% á ári síðasta áratuginn

Íbúðaverð á Íslandi hækkaði um 37% á tímabilinu frá 2001 til 2011 þegar búið er að taka tillit til verðbólgu. Að raunvirði hækkaði íbúðaverðið að jafnaði um 3,2% á ári á þessu tímabili.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Lloyds bankans um þróun íbúðaverðs í 33 löndum víða um heiminn á tímabilinu. Íslandi er í miðjum hópi þessara landa hvað hækkun á íbúðaverði varðar.

Indland sker sig úr því þar hækkaði íbúðaverðið um 284% á tímabilinu eða að jafnaði um 14,4% á ári. Hafa verður í huga að hagvöxtur á Indlandi á tímabilinu nam 280% í heildina. Í Japan aftur á móti lækkaði íbúðaverð um 30% eða að jafnaði um 3,5% á ári.

Þegar litið er á listann yfir þau 33 lönd sem úttektin nær yfir kemur í ljós að íbúðaverð á Íslandi hækkaði meira en í Danmörku árin 2001 til 2011 en minna en í Noregi og Finnlandi. Svíþjóð er ekki með á listanum. Af Norðurlöndunum hækkaði íbúðaverðið mest í Noregi eða um 72% sem gerir 5,5% hækkun á ári að jafnaði.

Skýrsla Lloyds bankans ber heitið Global Housing Market en útdráttur úr henni hefur verið birtur í Daily Mail.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×