Handbolti

Serbar unnu grannaslaginn og leika til úrslita

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Öskubuskuævintýri Serbíu heldur áfram á Evrópumeistaramótinu þar í landi en liðið tryggði sér í kvöld sæti í úrslitaleik mótsins með sigri á Króötum í undanúrslitum, 26-22.

Króatar höfðu eins marks forystu í hálfleik, 14-13, en náðu sér engan veginn á strik í þeim síðari. Markvarslan var nánast engin og sóknarleikurinn í molum.

Serbar gengu á lagið og sigu fram úr, hægt og rólega. Darko Stanic, markvörður Serba, fór í gang og varði nokkur afar mikilvæg skot. Skytturnar Momir Ilic og Marko Vujin fóru mikinn í sókninni og skoruðu samanlagt meira en helming marka sinna manna.

Króatar voru afar ólíkir sjálfum sér. Hugmyndasnauðir og úrræðalitlir í sókninni og Mirko Alilovic, sem hafði verið frábær í markinu allt mótið, var langt frá sínu besta.

Serbar gerðu þó sitt vel, spiluðu varnarleikinn af mikilli festu í seinni hálfleik og spiluðu af krafti í sókn.

Lið heimamanna var vel stutt af 20 þúsund áhorfendum í höllinni í Belgrad í kvöld en gríðarmikil öryggisgæsla var í kringum leikinn. Það var þó ekki annað að sjá en að leikurinn hafi farið vel fram enda var hann drengilega leikinn.

Úrsltaleikur Serbíu og Danmerkur fer fram á sunnudaginn. Leikurinn skiptir máli fyrir Ísland því ef Danir vinna fær Ísland auðveldari riðil í undankeppni Ólympíuleikanna í apríl. Liðið yrði þá með Króötum, Japönum og Síle í riðli.

Ef Serbar verða hins vegar meistarar mun Ísland keppa í riðli með Spáni, Slóveníu og Brasilíu. Tvö lið komast áfram úr hverjum riðli á Ólympíuleikana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×