Viðskipti innlent

Allt vöruúrval Vínbúðanna endurskoðað

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Til stendur að endurskoða allt vöruúrval áfengisverslana með hliðsjón af nýjum reglum, sem hafa orðið til þess að ÁTVR hefur hafnað áfengistegundum á borð við páskagull og motorhead rauðvín.

Í fréttum í gær var sagt frá því að ÁTVR hafnaði bjórnum páskagull meðal annars á grundvelli þess að umbúðir hans höfði of mikið til barna. Aðstoðarforstjóri ÁTVR segir að lagt sé heildarmat á allar nýjar vörur með tilliti til laga og reglugerða.

„Í tilfelli páskagulls þá er gull líka þekkt sem óáfeng vara og þá eru gerðar ríkari kröfur um merkingu og við gerum athugasemd meðal annars við það að merkingin á vöruheitinu bjór sé mjög smá og varla sýnileg," segir Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri Vínbúðanna.

Þar af leiðandi sé orðið Bjór og áfengisprósentan tengd myndmáli vörumerkisins og því ekki í samræmi við reglur. Sigrún segir nýjar reglur frá miðju ári 2011 hafa breytt því hvernig vörur eru metnar. Þar af leiðandi geti verið að vörur sem komnar voru í vínbúðir fyrir þann tíma uppfylli ekki ný lög og reglur og verður framboð þeirra endurskoðað á næstu mánuðum.

„Áfengisbirgjum hefur verið tilkynnt að við hyggjumst skoða allt vörusafnið með tilliti til þessarra nýju laga og regla og þess vegna er verið að benda á vörur sem orka tvímælis að standast þessar nýju reglur," segir Sigrún Ósk Sigurðardóttir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×