Handbolti

Finnst best að spila undir pressu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Aron Pálmarsson.
Aron Pálmarsson. mynd/daníel
Handknattleiksmaðurinn Aron Pálmarsson er íþróttamaður ársins 2012. Hann segist ekki hafa áhuga á því að vera farþegi í sínum liðum og kann best við sig þegar hann þarf að bera ábyrgð. Aron dreymir um að vinna gullverðlaun á stórmóti með landsliðinu.

Hinn 22 ára gamli Hafnfirðingur, Aron Pálmarsson, var um helgina kjörinn íþróttamaður ársins árið 2012 hjá samtökum íþróttafréttamanna. Aron hlaut afgerandi kosningu enda átti hann hreint út sagt stórkostlegt ár.

Drengurinn er lykilmaður hjá þýska liðinu Kiel sem vann Meistaradeildina, varð Þýskalandsmeistari og bikarmeistari. Liðið náði líka þeim einstaka árangri að fara í gegnum heilt tímabil í Þýskalandi án þess að tapa leik.

Á Ólympíuleikunum í London steig Aron síðan stóra skrefið. Hann fór úr því að vera einn efnilegasti handboltamaður heims í að verða einn sá besti. Frammistaða hans í London var þess eðlis að hún gleymist seint.

Úr varð að Aron var valinn í úrvalslið Ólympíuleikanna og eru margir á því að hann hafi verið besti handknattleiksmaður leikanna.

Aukatitill en einn sá stærsti

„Svona útnefning hefur gríðarlega þýðingu fyrir mig. Þetta er þriðja árið í röð sem ég kemst á þetta hóf og farið tómhentur heim. Ég hef svekkt mig mikið á því. Það sýnir líka hvað við eigum mikið af frábæru íþróttafólki. Sérstaklega voru margir góðir á þessu Ólympíuári. Það er því stórkostlegt að fá þessa útnefningu," sagði Aron en hann varð í sjöunda sæti í kjörinu í fyrra og fjórða sæti árið 2010.

„Ég hef kannski ekki beint stefnt að þessum titli. Þetta er aukatitill en um leið einn sá stærsti. Maður gerir sitt besta og svo þegar þessar útnefningar koma þá fer maður að pæla í hvað maður hefur afrekað og fer að klæja í puttana."

Eins og áður segir hefur undanfarið ár verið ótrúlegt fyrir Aron. Er hann farinn að gera sér grein fyrir því hversu ótrúlegt árið var hjá honum?

„Ég fattaði það fyrst almennilega áðan þegar árið var rifjað upp hjá mér. Þegar ég lít yfir þetta í heildina get ég ekki verið sáttari. Það sem stendur upp úr á árinu er að hafa tekið þrennuna með Kiel. Vinna alla þrjá stóru bikarana og ná fullkomnu tímabili. Það var einstakt. Svo stendur líka upp úr að fá að vera á Ólympíuleikum og spila þar. Það eru ekki allir íþróttamenn sem fá það tækifæri og fyrir það er ég þakklátur," sagði Aron en er hann búinn að vinna úr svekkelsinu er liðið féll úr leik gegn Ungverjum?

Vil ekki horfa á Ungverjaleikinn

„Ég held það. Við Guðjón Valur erum saman út í Kiel og við höfum eytt nokkrum kvöldstundum í að rifja þetta upp. Við endum venjulega bölvandi þegar á því stendur. Það tók samt nokkra daga að jafna sig á þessu sára tapi. Sem betur fer fór allt á fullt með Kiel fljótlega þannig að hægt var að hugsa um eitthvað annað. Ég get samt alveg viðurkennt að ég hef ekki horft aftur á þennan leik og mun líklega aldrei gera það."

Á síðustu tveimur stórmótum hefur Aron staðið sig gríðarlega vel með landsliðinu og er nú orðinn burðarás liðsins.

„Það er búið að segja við mig lengi að það komi að þessu en ég er samt bara 22 ára. Ég vissi að þessi tímapunktur kæmi. Ég hef lagt mikið á mig og fagna því að fá að bera ábyrgð."

Það var vitað mál að Kiel myndi ekki vinna endalaust alla sína leiki. Liðið er þegar búið að tapa tveimur leikjum í þýsku deildinni í vetur en hvernig fer það í hópinn að upplifa tap eftir alla þessa sigurgöngu?

„Það er mjög skrítið. Þetta er ekki líkt okkur og gerist ekki oft. Það voru talsvert miklar breytingar hjá okkur milli ára og við gerðum okkur alveg grein fyrir því að við myndum ekki leika það afrek eftir að fara taplausir í gegnum heilt tímabil. Það er ekkert víst að það verði nokkru sinni leikið eftir. Við erum samt enn með í toppbaráttunni og í baráttunni á öllum vígstöðvum. Það er eiginlega ekki hægt að biðja um mikið meira en það. Sérstaklega þar sem við erum að keppa í sterkustu deild í heimi."

Á Alfreð mikið að þakka

Það var ljóst fyrir löngu síðan að Aron ætti alla möguleika á því að ná í allra fremstu röð. Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel, ákvað því að veðja á drenginn ungan að aldri og hefur fóstrað hann undanfarin ár með góðum árangri.

„Alfreð á stóran þátt í því að ég er kominn þar sem ég er í dag. Þegar hann náði í mig til FH var áætlunin að lána mig frá félaginu í eitt til tvö ár. Það breyttist og ég fékk í staðinn spiltíma hjá Kiel og tækifæri til þess að þroskast sem leikmaður. Ég er hrikalega þakklátur fyrir það í dag. Ég finn mun á mér á hverju ári og alltaf jákvæðan. Alfreð hefur verið þjálfarinn minn í þrjú og hálft ár í besta liði í heimi og á klárlega sinn þátt í hvernig leikmaður ég er í dag."

Það styttist í heimsmeistaramótið á Spáni en Ísland spilar sinn fyrsta leik þann 12. janúar. Eftir þetta farsæla ár og nýja titilinn gerir Aron sér grein fyrir því að fólk ætlast til mikils af honum á Spáni.

„Það er alveg á hreinu. Það verður ágætis pressa. Ég finn mig samt betur þegar ég þarf að bera ábyrgð og er undir pressu. Ég vil frekar hafa pressu en ekki. Þá líður mér betur. Þetta verður skemmtilegt mót og ég get bara ekki beðið eftir því að það byrji," sagði Aron en hann fær meira skotleyfi hjá landsliðinu en með Kiel.

„Ég er búinn að vera að teygja á öxlinni síðustu vikur fyrir landsliðstörnina. Þetta eru mismunandi lið, Ísland og Kiel, og með landsliðinu þarf ég að skjóta meira. Það er ekkert mál að setja sig inn í það og ég fíla það líka," sagði íþróttamaður ársins 2012. Hvaða markmið hefur hann sett sér fyrir árið 2013?

„Það er að toppa þetta ár. Maður verður að reyna það. Hjá Kiel ætlum við að reyna að vinna alla titla og svo dreymir mig auðvitað um að vinna til gullverðlauna með íslenska landsliðinu. Ég hef fengið brons með landsliðinu en stóri draumurinn er gull. Ég ætla ekki að lofa því gulli núna í janúar en ég lofa að ég mun spila nokkur ár í viðbót með landsliðinu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×