Viðskipti innlent

Útlit fyrir tap Íslandspósts þrátt fyrir einkaleyfi

TAp þrátt fyrir einkarétt Útlit er fyrir að tap verði á alþjónustu Íslandspósts í ár, en innanríkisráðherra segir unnið að lækkun kostnaðar.
TAp þrátt fyrir einkarétt Útlit er fyrir að tap verði á alþjónustu Íslandspósts í ár, en innanríkisráðherra segir unnið að lækkun kostnaðar.
Taprekstur vegna minnkandi póstmagns kallar á að dregið verði úr kostnaði Íslandspósts vegna alþjónustu.

Með alþjónustu er meðal annars átt við rekstur póstafgreiðslna um land allt og dreifingu pósts alla virka daga um land allt. Þetta kemur fram í svari innanríkisráðherra við fyrirspurn Einars K. Guðfinnssonar þingmanns.

Íslandspóstur hefur einkarétt á póstsendingum allt að 50 grömmum að þyngd. Einkarétturinn hefur til þessa staðið undir kostnaði Íslandspósts vegna alþjónustu, sem nemur nú um 400 til 600 milljónum króna á ári, samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðu Póst- og fjarskiptastofnunar. Í svari ráðherra kemur hins vegar fram að vegna minnkandi póstmagns sé útlit fyrir að í ár verði tap hjá fyrirtækinu vegna alþjónustunnar.

Til að draga úr þörf Íslandspósts til að hækka gjaldskrár vinnur innanríkisráðuneytið nú að því að meta möguleikana í stöðunni.

Spurning Einars varðaði áform stjórnvalda vegna tilskipunar ESB um opnun póstmarkaða og þar með afnám einkaréttarins. Ráðherra segir að ekki standi til að taka upp tilskipunina fyrr en ljóst sé að þessi mál heyri sannarlega undir EES-samninginn.

Hvort sem einkarétturinn verður afnuminn eða ekki, getur engu að síður reynst nauðsynlegt að draga úr kostnaði vegna alþjónustunnar, segir ráðherra.- þj






Fleiri fréttir

Sjá meira


×