Viðskipti innlent

Miðborgin er ekki lengur dýrust

Miðborgin Meðalleiguverð á hvern fermetra var lægra í miðborginni en á svæðinu milli Kringlumýrarbrautar og Reykjanesbrautar í nóvember.Fréttablaðið/vilhelm
Miðborgin Meðalleiguverð á hvern fermetra var lægra í miðborginni en á svæðinu milli Kringlumýrarbrautar og Reykjanesbrautar í nóvember.Fréttablaðið/vilhelm
Leiguverð er orðið hærra í Reykjavík milli Kringlumýrarbrautar og Reykjanesbrautar en í miðborginni og Vesturbænum. Leiguverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um að meðaltali 7,6 prósent á síðustu tólf mánuðum.

Þetta má lesa úr samantekt Þjóðskrár Íslands á leiguverði íbúða í nóvember síðastliðnum. Þar kemur fram að leigan hafi að meðaltali hækkað um 0,6 prósent milli október og nóvember, og um 0,3 prósent síðustu þrjá mánuði.

Meðalleiguverð á hvern fermetra í Reykjavík milli Kringlumýrarbrautar og Reykjanesbrautar er nú um 1.882 krónur á hvern fermetra. Það er nærri fjórðungs hækkun frá nóvember í fyrra þegar verðið var að meðaltali um 1.527 krónur.

Setja verður fyrirvara við samanburðinn þar sem í sumum tilvikum eru fáir leigusamningar að baki meðaltalinu. Þá er aldur og gerð húsnæðis einnig mismunandi, sem hefur áhrif á leiguverðið.

Á sama tíma hefur leiguverð í miðborginni og vesturbænum því sem næst staðið í stað. Meðalverðið á hvern fermetra er nú 1.814 krónur, en var 1.820 krónur í nóvember í fyrra.

Miðborgin er þó enn örlítið dýrari en önnur svæði þegar litið er fram hjá verði á allra minnstu íbúðunum, þó svæðið milli Kringlumýrarbrautar og Reykjanesbrautar sé að verða svipað dýrt.

Miklar breytingar eru einnig á öðrum svæðum á höfuðborgarsvæðinu, en sveiflurnar skýrast að miklu leyti af því hversu fáir leigusamningar eru gerðir í hverjum mánuði. Leiguverð á tveggja og þriggja herbergja íbúðum hefur rokið upp á Kjalarnesi og í Mosfellsbæ, um 23 prósent á minni íbúðum en 28 prósent á þriggja herbergja íbúðum. Á móti kemur að leiguverð á fjögurra herbergja íbúðum hefur lækkað um 31 prósent á tólf mánuðum.

Á meðan verðið hækkar á höfuðborgarsvæðinu hefur leiguverð á húsnæði lækkað verulega víða á landsbyggðinni. Á Akureyri hefur leiguverð lækkað um að meðaltali 23 prósent. Lækkunin er litlu minni á Austurlandi, um 18,6 prósent, og á Vesturlandi, 16,7 prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×