Viðskipti innlent

Vikið burt en hætti fyrir sjö mánuðum

Unnur gunnarsdóttir
Unnur gunnarsdóttir
Sigurður Jóhannesson, sem Fjármálaeftirlitið (FME) vék í vikunni úr stjórn lífeyrissjóðsins Stapa vegna þekkingar- og reynsluleysis, hætti í stjórninni fyrir sjö mánuðum.

Þetta má sjá á heimasíðu Stapa og er tíundað í yfirlýsingu frá Samtökum atvinnulífsins (SA) sem birt var í gær, en Sigurður sat í stjórninni fyrir hönd samtakanna. SA gera alvarlegar athugasemdir við tilkynningu FME um málið og benda á að Sigurði hafi aðeins verið gert að víkja sem varamaður í stjórninni.

Í tilkynningu sem birt var á vef FME á þriðjudag kom fram að Sigurði hefði verið vikið einhliða frá sem stjórnarmanni í Stapa hinn 6. desember síðastliðinn. Ástæða brottvikningarinnar var sögð sú að hann teldist ekki uppfylla ákveðin hæfisskilyrði og að honum hefði verið tilkynnt um það snemma í október. Þar sem hann hefði „ekki orðið við kröfu stjórnar stofnunarinnar um að láta af störfum“ hefði FME vikið honum einhliða frá.

Á heimasíðu Stapa má hins vegar sjá að Sigurður vék úr stjórn Stapa á síðasta aðalfundi sjóðsins, sem haldinn var 8. maí, og nýr stjórnarmaður var settur í hans stað. Í yfirlýsingu frá SA um málið segir að

„sú ákvörðun FME að víkja Sigurði úr varastjórn virðist merki um sérreglu gagnvart honum þar sem hann er eini varastjórnarmaðurinn sem vitað er um að gerð hafi verið krafa um að standist hæfismat stjórnarmanna“. - þsj






Fleiri fréttir

Sjá meira


×