Viðskipti innlent

Sjóðurinn stendur ekki undir sér

Þórður Snær Júlíusson skrifar
Í tilkynningu ríkisstjórnarinnar kemur fram að ákvarðanir um veitingu óverðtryggðra lána verði ekki teknar fyrr en staða sjóðsins hefur verið styrkt með þeim aðgerðum sem stefnt er að að ráðast í. Guðbjartur Hannesson er velferðarráðherra. fréttablaðið/gva
Í tilkynningu ríkisstjórnarinnar kemur fram að ákvarðanir um veitingu óverðtryggðra lána verði ekki teknar fyrr en staða sjóðsins hefur verið styrkt með þeim aðgerðum sem stefnt er að að ráðast í. Guðbjartur Hannesson er velferðarráðherra. fréttablaðið/gva
Rekstur Íbúðalánasjóðs (ÍLS) er ósjálfbær og miðað við áætlanir stefnir í að eigið fé sjóðsins verði uppurið í lok þessa árs. Vegna þessa ætlar ríkissjóður að leggja honum til allt að 13 milljarða króna á næsta ári, samkvæmt tilkynningu frá velferðarráðuneytinu í gær. Alls telur sjóðurinn að hann þurfi 22,5 milljarða króna á næstu þremur árum. Þá er útlánasafn hans ofmetið um 40 milljarða króna. Þetta kemur fram í skilabréfi starfshóps um stöðu ÍLS og skýrslu IFS greiningar um sama mál sem birt var opinberlega í gær.

56 milljarðar til ÍLS

Framlagið kemur til viðbótar við þá 33 milljarða króna sem ríkið lagði sjóðnum til í lok mars 2011. Alls mun ríkið því leggja ÍLS til 56 milljarða króna. Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra sagði eftir ríkisstjórnarfund í gær að ekki þyrfti að grípa til mótvægisaðgerða vegna framlagsins. Það yrði ekki lagt fram sem beint fé, heldur færi það í gegnum efnahagsreikning. Einu áhrifin á fjárlög næsta árs yrðu að skuldir hækkuðu og vaxtakostnaður myndi aukast. Nýr starfshópur hefur einnig verið skipaður sem á að fara yfir framtíðarhorfur og -hlutverk sjóðsins. Hann á að skila af sér í febrúar á næsta ári.

Ljóst hefur verið í lengri tíma að ÍLS glímdi við mikinn rekstarvanda. Hann felst meðal annars í því að útlán sem hann veitir eru uppgreiðanleg en skuldabréf sem hann gefur út hafa ekki verið það síðan að kerfinu var breytt árið 2004. Það þýðir að þegar viðskiptavinir ÍLS greiða upp lán sín, meðal annars til að flytja sig til annarra lánveitenda, þá fær sjóðurinn reiðufé en tapar þeim vaxtatekjum sem hann áður hafði af láninu. Á sama tíma þarf hann að greiða áfram vexti vegna skulda sem sjóðurinn stofnaði til til að geta veitt útlánin. Vaxtamunur er orðinn tæplega 0,3 prósent, sem er ekki nægjanlegur og þar af leiðandi er rekstur sjóðsins ósjálfbær. Með öðrum skilar rekstur hans tapi miðað við þessar forsendur.

Helmingur lána greiddur upp

Starfshópur sem skipaður var í september, og átti að greina stöðu og horfur ÍLS, skilaði skilabréfi sínu síðastliðinn föstudag. Þar segir að „miðað við núverandi markaðsaðstæður og ef gert er ráð fyrir að útlán sjóðsins að fjárhæð 200 ma.kr. verði greidd upp mun það kosta sjóðinn um fjóra ma.kr. í tapaðar vaxtatekjur á hverju ári, á meðan ekki er hægt að endurlána uppgreiðsluna á svipuðum kjörum. Á árunum 2004-2006 jukust uppgreiðslur hjá sjóðnum verulega og námu 240 ma.kr. eða um helmingi af öllu útlánum hans á þeim tíma. Á árinu 2012 stefnir í að uppgreiðslur verði meiri en ný útlán sjóðsins".

Yfir skuldsettar eignir

Til viðbótar eru um 15 prósent af eignasafni sjóðsins í vanskilum, eða um 125 milljarðar króna. Við skoðun á útlánum sjóðsins komst starfshópurinn að því að um 300 milljarðar króna af útlánum hans hvíldu á fasteignum þar sem virði lána var yfir 110 prósent af fasteignamati og yfir 70 milljarðar á fasteignum þar sem virði lána var á milli 100 til 110 prósent af fasteignamati. Á afskriftarreikningi ÍLS um mitt þetta ár voru um 20 milljarðar króna til að mæta mögulegu útlánatapi. Í skilabréfinu segir að IFS greining, sem gerði skýrslu um áhættu og eiginfjárþörf sem starfshópurinn studdist við, telji útlánasafn sjóðsins mögulega ofmetið um 40 milljarða króna. Því þurfi að auka framlag á afskriftarreikning um 20 milljarða króna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×