Viðskipti innlent

Panamaflækjur afhjúpast ekki strax

bryndís kristjánsdóttir
bryndís kristjánsdóttir
„Það eru nokkur mál á borðinu hjá okkur sem eru með þræði til Panama, þannig að þetta gæti skipt máli," segir Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri um nýundirritaðan upplýsingaskiptasamning við Panama sem fjármálaráðuneytið kynnti í gær.

Bryndís segir hins vegar að nú taki við tímafrekt ferli við fullgildingu samningsins, sem verði líklega ekki lokið fyrr en í ársbyrjun 2014. Þá fyrst verði hægt að krefjast upplýsinga á grundvelli hans. „Þá mun til dæmis reyna á hvort það sé hægt að fá upplýsingar aftur í tímann," segir Bryndís.

Panama er 39. ríkið sem Ísland gerir samning af þessu tagi við. „Við fögnum hverjum samningi sem gerður er og þetta er mikilvægur liður í að berjast gegn skattaflótta," segir Bryndís.

Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri tekur í sama streng. „Það hefur verið mjög erfitt að fá upplýsingar frá þeim löndum þar sem svona mikil leynd ríkir. Þessir nýju samningar sem búið er að gera við ríki sem reka aflandsþjónustu gefa okkur góðar vonir um að það verði mun auðveldara að fást við þetta í framtíðinni." - sh






Fleiri fréttir

Sjá meira


×