Viðskipti innlent

Keyptu fimmtung á 375 milljónir króna

Forstjóri Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, er einn stærsti eigandi hennar líka.fréttablaðið/pjetur
Forstjóri Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, er einn stærsti eigandi hennar líka.fréttablaðið/pjetur
Meirihlutaeigendur í Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni hf. keyptu í júní síðastliðnum 20 prósenta hlut í fyrirtækinu af Arion banka. Þeir eru OA eignarhaldsfélag, í eigu Andra Þórs Guðmundssonar forstjóra og Októs Einarssonar stjórnarformanns, fjárfestingasjóður í stýringu Auðar Capital og F-13 ehf., félag í eigu fjögurra framkvæmdastjóra Ölgerðarinnar. Eftir viðskiptin á Auður fagfjárfestasjóður 45 prósenta eignarhlut. OA ehf. 38 prósenta og F-13 ehf., 17 prósenta.

Samkvæmt árshlutauppgjöri Arion banka voru greiddar 375 milljónir króna fyrir fimmtungshlutinn. Miðað við það verð er markaðsvirði Ölgerðarinnar um 1,9 milljarðar króna. Um tvö ár eru síðan Ölgerðin gekk í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu. Í henni voru skuldir meðal annars lækkaðar úr 9,5 milljörðum króna í 7,2 milljarða króna.

Lækkunin var tilkomin annars vegar vegna inngreiðslu nýs hlutafjár og skuldbreytingar Arion banka í hlutafé sem tryggði honum 20 prósenta eignarhlut. Í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins til bankans um kaupin segir að fyrrum eigendur hafi átt kauprétt á hlutnum. „Arion banki ætlaði sér ekki að eiga þennan hlut til lengri tíma enda ekki hluti af kjarnastarfsemi bankans að eiga hluti í félagi eins og Ölgerðinni. Fyrrum eigendur einfaldlega kusu að nýta kaupréttinn og náðist um það samkomulag við bankann." Aðrir eigendur Ölgerðarinnar eru í viðtali við Atvinnulífið, tímarit Íslandsbanka um fjármál og efnahagshorfur sem gefið var út í gær. Þar segir Andri frá því að rekstur Ölgerðarinnar hafi gengið það vel að kaupin reyndust gerleg. Áætluð velta fyrirtækisins í ár er um 18 milljarðar króna.

Ölgerðin fór fyrr í sumar í útboð með öll sín bankaviðskipti og flutti í kjölfarið alla fjármögnun og bankaviðskipti yfir til Íslandsbanka. Um er að ræða langtímafjármögnun upp á sex til sjö milljarða króna auk allrar bankaþjónustu. -þsj





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×