Fastir pennar

Týnda fullnægingin

Sigga Dögg skrifar
Spurning: „Ég var gift sama manninum í sirka 40 ár. Kynlífið hjá okkur var mjög gott, ég fékk reglulega fullnægingu með honum, en nú er hann látinn. Ég er búin að kynnast manni og erum við farin að búa saman.

Kynlífið hjá okkur er yndislegt nema sá hængur er á að ég fæ mjög sjaldan fullnægingu með honum nema með aðstoð hjálpartækis. Ég sakna þess að fá ekki fullnægingu með honum samtímis. Ég held að það séu liðnir um átta mánuðir síðan ég fékk fullnægingu með honum. Er eitthvað sem ég get gert í því að fá fullnægingu á eðlilegan hátt?"

Svar: Ég vil byrja á því að samhryggjast þér vegna fráfalls mannsins þíns. Það eru nokkrir hlutir sem við þurfum að skoða í tengslum við týndu fullnæginguna þína.

Í fyrsta lagi þá langar mig að segja þér að það sé enginn skömm í því að nota kynlífstæki til að fá fullnægingu í samförum – mörg pör nota kynlífstæki og það er eðlilegt og algengt. Hann gæti meira að segja notið góðs af titringnum. Ef þig langar til að halda áfram að nota titrara þá má fá þá í alls kyns stærðum svo hann ætti ekki að vera ógnandi eða of fyrirferðarmikill. Mörg pör eiga erfitt með að fá fullnægingu samtímis í samförum, og margar konur eiga erfitt með fá fullnægingu í samförum almennt, án beinnar örvunar snípsins.

Örvar hann þig eða þú sjálfa þig í samförum? Gætir þú beðið hann um að örva þig eða værir þú mögulega tilbúin að gera það sjálf? Svo er það annað, ertu nógu æst og blaut þegar samfarir hefjast? Var forleikurinn nægur? Værir þú opin fyrir því að prufa sleipiefni? Lykillinn í þessu máli er að finna saman farsæla lausn og það fæst aðeins með því að tala saman. Þið þurfið því að finna hvað hentar ykkur báðum og ykkur líður vel með að gera.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×