Bakþankar

Grænir eru dalir þínir

Bergsteinn Sigurðsson skrifar
Elliðaárdalurinn komst í brennidepil í fyrradag þegar greint var frá því að fulltrúar Vinstri grænna í borginni legðust gegn því að leikfimistöðin Boot Camp – eða Bússubúðir eins og kollegi minn kýs að þýða það – fengi þar æfingaaðstöðu. Telur flokkurinn ekki fara „vel á því að koma fyrir á þessu svæði líkamsrækt með herbúðasniði, hávaða og yfirbragði sem því fylgir, bílastæðaþröng og mikilli umferð bíla" og vill finna húsum á svæðinu „heppilegra hlutverk í sátt við mannlíf, sögu og náttúrulegt umhverfi".

Forsaga málsins er sú að í tíð R-listans – sem Vinstri græn tóku þátt í – gaf borgarstjórn Fornbílaklúbbnum lóð í Elliðaárdal án kvaða til að byggja bílasafn. Þar var byggt sýningarhús og lagður vegur með það beinlínis að markmiði að auka umferð og laða að fleira fólk í dalinn. Þegar bíldellingar hurfu frá áformum sínum um bautastein fyrir bensínháka fyrri tíma var þeim frjálst að selja aðstöðuna hæstbjóðanda, sem leigir leikfimistöðinni húsið. Og slík starfsemi hugnast Vinstri grænum ekki.

Ég hefði reyndar haldið að flokkur eins og Vinstri græn fagnaði leikfimistöð í Elliðaárdalnum í stað safns til heiðurs einkabílnum (hvers vægi flokknum er mikið í mun að minnka). Andstaðan er ekki síst forvitnileg í ljósi þess að Bússubúðir eru í sjálfu sér eins Vg-legt fyriræki og hugsast getur: lítið sprotafyrirtæki sem nokkrir vinir stofnuðu og leggur áherslu á tiltölulega sjálfbæra líkamsrækt, það er þrekæfingar þar sem lóðum og tækjabúnaði er haldið í lágmarki svo aðstaðan tekur lítið pláss.

Bússubúðir eru í raun andstaðan við líkamsræktarstöðvar á borð við plássfreka orkusvelginn í Laugardalnum, sem kostaði formúu að byggja og innrétta með sjónvarpsvæddum hlaupabrettum, nýtur góðs af nálægðinni við Laugardalslaug – sem er í almannaeigu – og hefur losað sig úr skuldasúpu með kennitöluflakki.

Af umræðum meðal Facebook-vina minna að dæma virðist ásteytingarsteinninnn um veru Bússubúða í Elliðaárdal aðallega vera ólík sjónarmið um notkun grænna svæða. Hér takast á þau systkin friðsæld og fjör. Á sumum má helst skilja að grænna svæða sé ekki hægt að njóta nema liggjandi við kyrrlátan árbakka með puntstrá í munni að dást að bláklukkum og fá innblástur að ljóði, meðan aðrir líta á útvistarsvæðin sem kjörlendi til að finna kröftum sínum viðnám. Á þessu hlýtur að mega finna einhvern milliveg. Fyrst við erum á annað borð komin út á tún.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.