Fastir pennar

Illa rökstudd delluhugmynd

Ólafur Þ. Stephensen skrifar
Í nýju frumvarpi Katrínar Jakobsdóttur menntamálaráðherra til breytinga á fjölmiðlalögum er lagt til að fjölmiðlum verði bannað að birta niðurstöður skoðanakannana um fylgi frambjóðenda daginn fyrir kosningar og á kjördag.

Þetta er rökstutt með því að „skoðanakannanir geti verið skoðanamyndandi fyrir kjósendur" og vísað til þess að bannið eigi að hjálpa litlum eða nýjum framboðum sem mælast með lítið fylgi rétt fyrir kosningar. „Í slíkum tilvikum geta skoðanakannanir á síðasta degi fyrir kosningar haft þau áhrif að kjósendur velji frekar framboð sem talin eru líklegri, samkvæmt könnunum, til að hljóta sæti t.d. í sveitarstjórn eða á Alþingi," segir í greinargerð með frumvarpinu.

Í henni er ekki vísað til neinna haldbærra rannsókna, sem sýni fram á þessi tilteknu tengsl skoðanakannana og kosningahegðunar. Það er ekki skrýtið, vegna þess að þær eru ekki til. Raunar er gagnstæða tilgátan líka talsvert vinsæl; að framboð sem mælast með lítinn stuðning í könnunum rétt fyrir kosningar fái samúðarfylgi.

Stjórnmálafræðingar hafa rannsakað báðar tilgátur heilmikið, en hafi einhver tengsl fundizt eru þau í bezta falli afar veik. Engin samstaða er meðal fræðimanna um að skoðanakannanir hafi yfirleitt nokkur áhrif á kosningahegðun.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem sú hugmynd að banna fjölmiðlum að birta niðurstöður skoðanakannana kemur fram þótt hún hafi ekki áður ratað inn í lagafrumvarp. Árið 1991 skilaði nefnd sérfræðinga þáverandi menntamálaráðherra skýrslu, í framhaldi af því að Alþingi ályktaði að kanna ætti hvort ástæða væri til að setja lög um skoðanakannanir. Niðurstaða nefndarinnar var afdráttarlaus; hún varaði beinlínis við því „að banna fólki aðgang að upplýsingum sem það kann að vilja nýta sér til ákvarðanatöku, enda sé ekki um að ræða rangar upplýsingar sem ógni almannaheill".

Nefndin sagði að hugmyndir eins og þær sem menntamálaráðherra vísar nú til í greinargerð með frumvarpi sínu væru „getsakir sem rannsóknir hafa ekki staðfest". Og jafnvel þótt tilgátur um áhrif skoðanakannana reyndust réttar, vaknaði sú spurning hvort þau áhrif væru svo óæskileg eða háskaleg að þau ógnuðu almannaheill. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að það væri miklu fremur ógn við almannaheill að setja lög, sem bönnuðu almenningi að afla sér réttra upplýsinga.

Í frumvarpinu eru engin rök færð fyrir því af hverju eigi að banna fjölmiðlum að birta niðurstöður kannana síðustu dagana fyrir kosningar en leyfa aðrar pólitískar fréttir, auglýsingar framboða og annað sem ætla má að veiti fólki upplýsingar um framboðin og hafi þar með áhrif á það hvernig það ráðstafar atkvæði sínu.

Tillaga menntamálaráðherra er svona dæmigerð delluhugmynd, sem er til þess hugsuð að hafa vit fyrir fólki en byggir ekki á neinum vísindalegum grunni. Hún er fyrst og fremst til þess fallin að takmarka frelsi fjölmiðla og hamla aðgangi almennings að upplýsingum. Svoleiðis delluhugmyndir á Alþingi ekki að samþykkja.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.