Innlent

Háskólunum verði fækkað úr sjö í fjóra

Hægt væri að sameina HR og Háskólann á Bifröst, samkvæmt skýrslu Vísinda- og tækniráðs.
Hægt væri að sameina HR og Háskólann á Bifröst, samkvæmt skýrslu Vísinda- og tækniráðs. Fréttablaðið/anton
Fjárveitingar til háskóla eru mun minni hér en annars staðar. Veikleikar háskólastigsins felast í of mörgum og fámennum skólum. Hægt væri að fækka skólunum án mikillar röskunar, eða breyta rekstrarformi til að auka samstarf.

Veikleikar háskólastigsins á Íslandi felast í of mörgum og fámennum háskólum og mögulegt er að fækka þeim úr sjö í fjóra án mikillar röskunar.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í drögum að skýrslu sem Vísinda- og tækniráð hefur sett á heimasíðu sína. Skýrslan fjallar um einföldun á vísinda- og nýsköpunarkerfinu í heild, sem unnið hefur verið að undanfarið ár. Vísinda- og tækniráð starfar undir stjórn forsætisráðherra og mótar opinbera stefnu í vísindum og tækni á Íslandi.

„Þrenns konar rekstrarform, opinberir háskólar, sjálfseignarstofnanir og hlutafélag, hindrar samstarf milli háskóla,“ segir í skýrslunni. Tvær tillögur eru lagðar fram til breytinga á háskólunum.

Annars vegar er lagt til að skólunum verði fækkað í fjóra úr sjö. Tveir yrðu opinberir háskólar og tveir sjálfstæðir. Þannig myndu Háskóli Íslands og Landbúnaðarháskóli Íslands sameinast, Háskólinn á Akureyri og Háskólinn á Hólum sömuleiðis. Þá myndu Háskólinn í Reykjavík og Háskólinn á Bifröst verða sameinaðir, en Listaháskóli Íslands yrði áfram eins og er. Þessi skipan myndi festa háskólastarf í sessi á landsbyggðinni að mati skýrsluhöfunda, auk þess sem leiðin er auðveld og myndi valda lítilli röskun. Hins vegar yrðu kraftar áfram töluvert dreifðir og rekstrarformin áfram ólík.

Hinn valkosturinn er að halda fjölda háskóla óbreyttum en breyta rekstrarformi þeirra svo þeir yrðu allir reknir sem sjálfseignarstofnanir. Með því að fara þá leið yrði ábyrgðin á verkaskiptingu og sameiningu sett á sjálfa háskólana. „Líklegur ávinningur er að enn frekari breytingar á verkaskiptingu og enn skjótvirkari sameiningar næðust fram með þessari ákvörðun,“ segir í skýrslunni.

Fjárveitingar til háskóla hér á landi eru mun minni en í samanburðarlöndum, hvort heldur sem litið er til ríkja innan Efnahags- og framfarastofnunarinnar eða á Norðurlöndunum. „Frá 2008 hafa fjárveitingar til háskóla dregist saman að raungildi um ríflega 13 prósent án þess að gripið hafi verið til heildstæðra hagræðingaraðgerða.“ Á sama tíma hefur nemendafjöldinn aukist og því er krafa á háskólana að auka þjónustu fyrir minna fé. „Að öðru óbreyttu ógnar þessi óheillaþróun rannsóknastarfsemi innan háskólanna.“

thorunn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×