Fastir pennar

Meiri fækkun ríkisstarfsmanna

Ólafur Þ. Stephensen skrifar
Seðlabankinn sendi ríkisstjórninni og Alþingi kurteislega ábendingu í riti sínu Peningamálum, sem út kom í síðustu viku. Þar segir að fjárlög þessa árs séu breytt frá upphaflegu frumvarpi, sem lá til grundvallar hagspá Seðlabankans í nóvember. Hallinn á fjárlögunum sé þannig þremur milljörðum meiri en gert var ráð fyrir. „Mest munar um að ekki var gengið jafn langt í aðhaldi launakostnaðar eins og gert hafði verið ráð fyrir í frumvarpinu eða sem nemur um 2,1 ma.kr. Gert er ráð fyrir að launakostnaður í ár verði 2,5% meiri en í fyrra. Í ljósi umsaminna launahækkana opinberra starfsmanna er ljóst að enn þarf að skera niður vinnumagn eigi þessi forsenda að halda," segir Seðlabankinn.

Á mannamáli þýðir þetta að fækka verði ríkisstarfsmönnum, annars verði hallinn á rekstri ríkisins meiri en fjárlögin gera ráð fyrir.

Ábending Seðlabankans er til merkis um að við meðferð fjárlagafrumvarpsins var látið undan þingmönnunum, sem undanfarin misseri hafa hamazt gegn fækkun ríkisstarfsmanna á ýmsum forsendum; þeir telja grafið undan velferðarkerfinu, undan einstökum byggðarlögum eða landshlutum o.s.frv. Vandinn við þennan málflutning er að viðkomandi benda sjaldnast á hvar megi skera niður í staðinn, nema hvað einn og einn kemur með gömlu lýðskrumslausnina: Skera niður risnu, utanlandsferðir og utanríkisþjónustuna. Sparnaður á þeim útgjaldaliðum er auðvitað nauðsynlegur eins og annars staðar en þeir eru bara svo pínulítill hluti af útgjöldum ríkisins að það skiptir litlu í heildarsamhenginu. Hinn kaldi veruleiki er að launakostnaður er svo stór hluti af ríkisútgjöldunum að ómögulegt er að ná utan um vandann í ríkisfjármálum án þess að segja upp fólki.

Þegar fyrirtæki á einkamarkaði sjá fram á kostnaðarhækkanir, meðal annars launahækkanir, en búast ekki við samsvarandi hækkun á tekjum segja þau upp fólki. Það eru sársaukafullar aðgerðir en nauðsynlegar, því að óábyrgt væri að stefna fyrirtækjunum í þrot með því að gera ekki neitt. Okkar sameiginlega fyrirtæki, ríkissjóð, verður að reka með nákvæmlega sama hætti.

Samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu fjölgaði stöðugildum hjá ríkinu, þar með talið hjá opinberum hlutafélögum, um 38% áratuginn fyrir hrun, 1999-2008. Það var fjölgun byggð á óábyrgum ákvörðunum stjórnmálamanna sem vildu veita góða þjónustu og hafa kjósendur sína ánægða en tekjur ríkisins standa nú engan veginn undir góðverkunum. Hvernig gengur svo að snúa blaðinu við? Samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar frá síðastliðnu hausti hefur ársverkum frá ríkinu fækkað um 6,5% frá 2008. Með öðrum orðum hefur aðeins verið undið ofan af fjórðungi af fjölguninni frá því fyrir hrun.

Einhverra hluta vegna þorir ríkisstjórnin að setja sér markmið um fækkun ríkisstofnana, en ekki að segja frá því hvað störfum eigi að fækka mikið við sameiningarnar. Það blasir þó við að eigi kerfisbreytingin að skila raunverulegum sparnaði, verður að fækka starfsmönnum. Kominn er tími til að horfast í augu við það.


×