Samstarf

Áhersla lögð á gæði vörunnar

Sigurbjörn Þór Jakobsson, framkvæmdastjóri Pharmarctica.
Sigurbjörn Þór Jakobsson, framkvæmdastjóri Pharmarctica.
Á Grenivík við rætur Kaldbaks í Eyjafirði eru framleiddar ilm- og litarefnalausar snyrtivörur og krem undir heitinu APÓTEK. Vörurnar eru framleiddar hjá íslenska lyfja- og snyrtivörufyrirfyrirtækinu Pharmarctica sem stofnað var fyrir tíu árum. Í dag starfa átta manns hjá fyrirtækinu og er vörulínan seld í lyfjaverslunum um allt land. „Lyfjafræðingarnir Torfi Rafn Halldórsson, Jónína Freydís Jóhannesdóttir og Bergþóra Stefánsdóttir hjúkrunarfræðingur áttu hugmyndina að fyrirtækinu og fengu Sænes, dótturfélag Grýtubakkahrepps, með sér í lið við að koma þessu á koppinn. Fyrirtækið var stofnað árið 2002 og hófst framleiðsla ári síðar,“ segir Sigurbjörn Þór Jakobsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins. APÓTEK lyfjalínan samanstendur af mixtúrum, lausnum og kremum og olíum sem framleiddar eru eftir forskriftum lækna. Vörurnar eru allar ilm- og litarefnalausar. „Við höfum bætt við línuna gegnum árin og spönnum nú breytt svið, allt frá hægðamixtúrum og sótthreinsandi efnum sem notuð eru við skurðaðgerðir, yfir í húðvörur fyrir börn og andlitslínu,“ útskýrir Sigurbjörn. „Vinsælustu vörurnar okkar inn á heimilin eru hýdrofíl rakakrem, vaselín og karbamíðkrem. Barnalínan okkar er einnig vinsæl en í henni er barnaolía, barnakrem og barnapúður. Þá erum við einnig í stöðugri vöruþróun og nú stendur til að bæta norskum brjóstdropum við mixtúrulínuna okkar. Þeir hafa ekki verið til hér á landi í mörg ár en voru mjög vinsælir á sínum tíma,“ útskýrir Sigurbjörn. Hann segir að ekki ósvipaðar vörur megi finna á markaðnum en APÓTEK línan sé vel samkeppnishæf þegar kemur að gæðum. „APÓTEK vörurnar eru töluvert ódýrar miðað við gæðin. Verðlagning á snyrtivörum almennt er að stórum hluta vegna markaðssetningar. Hjá okkur er lögð meiri áhersla á gæði en á markaðssetninguna og því getum við boðið lágt verð. Við miðum þó auðvitað alltaf hærra og stefnum á að ná frekari markaðshlutdeild. Markaðssetning erlendis er á byrjunarstigi en við erum að þreifa fyrir okkur í Færeyjum.“ Auk eigin vörulínu starfar Pharmarctica sem framleiðsluverktaki fyrir ýmis fyrirtæki. Pharmarctica framleiðir meðal annars vítamín fyrir lyfjafyrirtækið Icepharma. „Við framleiðum vítamínin Bio Mega og Ein á dag. Sú framleiðsla er orðin umfangsmikill þáttur af okkar vinnslu í dag og sér Icepharma um dreifingu á vörum okkar í apótek um allt land.“ Nánari upplýsingar á www.pharma.is.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×