Skoðun
Magnús Orri Schram
alþingismaður

Sjálfstæðisbaráttan

Magnús Orri Schram skrifar

EES-samningurinn er 20 ára um þessar mundir og af því tilefni tóku Norðmenn nýlega saman ítarlega skýrslu um reynslu sína af EES-samstarfinu. Niðurstöður skýrslunnar má að miklu leyti yfirfæra á íslenskan veruleika enda þjóðirnar tvær í sömu stöðu innan EES.

Skýrsluhöfundar segja ávinning Norðmanna af EES mikinn. Samningurinn hafi styrkt atvinnulíf Norðmanna, aukið viðskipti og bætt lífsgæði. Þá dregur skýrslan fram að einn þriðja af norskum lögum megi rekja til samstarfsins við ESB og að yfir 7.000 reglugerðir, tilskipanir o.fl. hafi verið teknar upp í Noregi vegna samningsins. Þá er dregið fram að Norðmenn hafa mjög lítil áhrif á þessi lög og reglugerðir sem taka þarf upp eftir óskum frá Brussel. Þessi staða veikir óneitanlega undirstöður lýðræðisins í Noregi, því þjóðkjörnir fulltrúar á norska þinginu koma lítið sem ekkert að þriðjungi þeirra laga sem samin eru í Brussel og svo stimpluð í Noregi.

Þá segir skýrslan að Noregur hafi frá árinu 1992 tekið upp um 70% af öllum ESB-gerðum. Það er meira en margir fullgildir meðlimir ESB hafa gert. Þannig hafi síðustu 20 ár markað „Evrópuvæðingu" Noregs eins og komist er að orði.

Andstæðingar aðildar Íslands að ESB hafa í málflutningi sínum lagt áherslu á að sjálfstæði þjóðarinnar sé hætta búin við inngöngu í sambandið og því sé samstarf innan EES betri kostur. Í ljósi norsku skýrslunnar er sú röksemd fallin um sjálfa sig. Norska skýrslan dregur það skýrt fram að lög þjóðarinnar eru að þriðjungi ættuð frá ESB án þess að kjörnir fulltrúar hafi mikið um þau að segja. Væri landið á hinn bóginn aðili að ESB hefðu þingmenn miklu betri aðkomu að öllum þeim lögum sem í landinu gilda. Þannig má segja að sjálfstæði þjóðarinnar myndi standa miklu styrkari fótum væri landið hluti af ESB frekar en í núverandi stöðu innan EES-samstarfsins.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.