Handbolti

Eigum mann í sérflokki fjórða mótið í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson fór á kostum á Evrópumótinu í Serbíu.
Guðjón Valur Sigurðsson fór á kostum á Evrópumótinu í Serbíu. Mynd / Vilhelm
Guðjón Valur Sigurðsson var valinn í úrvalsliðið á Evrópumótinu í Serbíu í gær en enginn spilaði betur í mótinu af vinstri hornamönnum að mati sérfræðinga evrópska sambandsins. Þetta er fjórða stórmót íslenska landsliðsins í röð þar sem Ísland á fulltrúa í úrvalsliði og alls hafa sex íslenskir leikmenn þótt skara framúr á þessum fjórum mótum.

„Ég get ekki sagt að ég hafi verið hoppandi heljarstökk. Þetta er auðvitað skemmtileg viðurkenning en það er alltaf erfitt að veita einstaklingsverðlaun í hópíþrótt," sagði Guðjón Valur hógværðin uppmáluð og bætti við:

„Maður fær þessi verðlaun út á liðsfélagana. Maður er ekki að gera hlutina sjálfur inni á vellinum heldur þarf margar hendur til að skora mörk. Meira en 90 prósent af þessu er þökk sé liðsfélögunum."

Guðjón Valur tók við fyrirliðabandinu í forföllum Ólafs Stefánssonar á EM í Serbíu og skilaði sínu hlutverki frábærlega. Hann skoraði 41 mark í sex leikjum eða 6,8 mörk að meðaltali í leik. Þetta er hæsta meðalskor íslensks leikmanns á stórmóti síðan Ólafur Stefánsson skoraði 8,3 mörk að meðaltali á EM í Sviss 2006.

Íslenskir leikmenn hafa verið í sérflokki á síðustu stórmótum ef marka má val á úrvalsliðum mótanna. Hér er undanskilið heimsmeistaramótið í Króatíu 2009 en íslenska liðið var ekki með á því móti.

Guðjón Valur var einnig valinn í úrvalslið Ólympíuleikanna í Peking ásamt þeim Snorra Stein Guðjónssyni og Ólafi Stefánssyni.

Ólafur var valinn í úrvalslið Evrópumótsins í Austurríki en hann var einnig valinn í úrvalsliðið á Evrópumótunum í Sviss 2006 og í Svíþjóð 2002.

Alexander Petersson var valinn í úrvalslið Heimsmeistaramótsins í Svíþjóð í fyrra þegar íslenska liðið náði sjötta sætinu.

Það setur árangur íslenska liðsins á EM í Serbíu í smá samhengi að Guðjón Valur var sá eini af fyrrnefndum leikmönnum sem lék með liðinu í milliriðlinum. Alexander gat ekki leikið með í síðustu þremur leikjunum vegna meiðsla og Ólafur og Snorri Steinn voru ekki með á þessu móti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×