Fastir pennar

Frelsi til að vera til

Pawel Bartoszek skrifar
Það berast ekki allt of margar fréttir af þinginu þessa dagana þar sem aukið er á svigrúm fólks til leita hamingjunnar og ráða sér sjálft. En það er sjálfsagt að hrósa þingmönnum þegar það gerist. Nýsamþykkt þingsályktunartillaga um að heimila staðgöngumeðgöngu í velgjörðarskyni er skref í rétta átt.

Ef við gefum okkur það að allir séu fæddir frjálsir og ekki eigi að banna fólki að gera það sem ekki skaðar aðra, er erfitt að finna góð rök fyrir því að meina konum að ganga með börn fyrir aðra. Raunar sama hvort greitt sé fyrir „greiðann" eða ekki. Mótrökin í þessu máli ganga meira og minna út á það að vernda fólk fyrir sjálfu sér, af umhyggju fyrir því, auðvitað. Margir líta á staðgöngumæður sem fórnarlömb. En sé litið til þeirra rannsókna sem gerðar hafa verið, t.d. dæmis rannsókna Elly Teman á staðgöngumæðrum í Ísrael og í Bandaríkjunum, virðist sú ímynd ekki vel studd.

"En börnin?“En afgreiðum þetta fyrst út frá sjónarhorni barnsins. Gefum okkur það að það sé gott að vera til. Af því leiðir að öll mótrök sem byggja á vísun í réttindi barnsins eru fremur léttvæg, ef beiting þeirra á að leiða til að barnið verði aldrei til. Samfélagið hefur líka farið yfir þessa umræðu áður. Jú, það getur kannski þótt einhverjum fúlt að hafa aldrei kynnst erfðafræðilegum föður sínum, en rétturinn á að vita uppruna sinn getur varla trompað réttinn til að vera til.

"Ósvaraðar spurningar“Stundum má heyra þann frasa, bæði hér, sem annars staðar þar sem reynir á endurskilgreiningu fjölskyldunnar, að „mörgum siðferðislegum spurningum sé enn ósvarað". Það má vera að einhverjir hafi ekki svarað þeim eða þori ekki að segja hvert þeirra svar sé en tæknifrjóvganir, ættleiðingar einstaklinga eða samkynhneigðra, allt þetta kallaði fram einhverjar spurningar og öllum þeim var svarað, þótt það hafi ekki endilega allir sammælst um svarið frá fyrsta degi.

Auðvitað má huga að ýmsu: „Hver er mamman? Hvað ef foreldrum snýst hugur? Hvað ef konan vill halda barninu? Á barnið rétt á að vita hver staðgöngumóðirin er?" Það er sjálfsagt að lögin taki á þessum spurningum til að spara þeim sem hafa hagsmuna að gæta óþarfa ferðir upp í Héraðsdóm. En hafi menn það til dæmis á tilfinningunni að það sé mjög algengt að staðgöngumóðurinni snúist hugur, þá virðist sú tölfræði helst byggð á bandarískum sjónvarpsþáttum. Þau tilfelli virðast mjög sjaldgæf í raunveruleikanum (minna en 1/10.000 skv. Dr. Elly Teman, svo eitthvað sé nefnt).

Ekki í illgjörðarskyni?Gert er ráð fyrir að staðgöngumeðganga verði einungis leyfð í velgjörðarskyni, en ekki gegn greiðslu. Það mætti raunar alveg sjá hina hliðina á þessu máli. Í Ísrael, þar sem staðgöngumeðganga hefur verið leyfð í á annan áratug, má staðgöngumóðirin hvorki vera skyld fjölskyldunni sem á að fá barnið né leggja til eggfrumuna sjálf. Þetta er kannski til umhugsunar hér, í þjóðfélagi sem virðist gjarnt á að telja að sumar athafnir séu ásættanlegar sem greiði við vin eða fjölskyldumeðlim en orðnar hæpnar ef farið er út fyrir þann hóp og peningar bætast í spilið. Væri t.d. betra að gjafasæði kæmi alltaf frá vinum eða ættingjum?

Af sama meiði eru áhyggjur manna af því að einhverjir kynnu að sérhæfa sig í öllu því sem staðgöngumeðgöngu fylgir og jafnvel „hagnast á því". Ekki er ástæða til að amast við slíku fremur en það er ástæða til að amast við tilvist ættleiðingarstofa. Væri betra að hvert einasta par sem vildi ættleiða barn þyrfti sjálft að finna upp hjólið og hringja í munaðarleysingjahæli um heim allan? Milliliðir eru einmitt til að afla sér reynslu, létta sporin og verja fólk fyrir svikahröppum.

Jákvætt fyrsta skrefÞrátt fyrir að ef til vill hefðu skrefin mátt vera hugrakkari og koma fyrr, þá er engu að síður gleðilegt að þingið hafi ákveðið að leyfa staðgöngumeðgöngu á Íslandi. Þau álitamál sem upp kunna að koma yfirskyggja ekki það góða sem felst í því að nýjum einstaklingum er gert kleift að verða til.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×