Bakþankar

Fýluferð á föstudegi

Magnús Þorlákur Lúðvíksson skrifar
Andskotinn, þetta er vesen," hugsaði ég með mér þegar ég uppgötvaði að ég hafði keyrt um á útrunnu ökuskírteini í þrjá mánuði. Ég gróf upp símanúmerið hjá gamla ökukennaranum mínum og pantaði ökumat síðar í sömu viku. Ökumatið gekk bara nokkuð vel; ég þótti vera öruggur ökumaður en mætti vera aðeins duglegri við að gefa stefnuljós. Þá þarf ég að gæta þess að stoppa alveg, en ekki næstum því, við stöðvunarskyldu. Gott og vel, ég var kominn með ökumatið og gat þá endurnýjað ökuskírteinið hjá sýslumanni. Það var föstudagur og ég ákvað að klára málið bara strax.

Ég mætti þangað rétt fyrir klukkan eitt, lagði ökumatið sigri hrósandi á afgreiðsluborðið og sagðist vera kominn til að endurnýja ökuskírteinið mitt. En þá kom babb í bátinn.

Það kom í ljós að það er ekki hægt að fá útgefið ökuskírteini hjá sýslumanninum í Reykjavík. Til þess þurfa Reykvíkingar að gera sér ferð til Kópavogs. Þessi tíðindi drógu aðeins úr mér, ég var nú einu sinni að skjótast úr vinnunni, en ég var í góðu skapi þannig að ég tók þessu vel og spurði hvar sýslumaðurinn í Kópavogi væri til húsa.

Afgreiðslustúlkan skýrði mér skilmerkilega frá því en þegar ég gerði mig líklegan til að hverfa á brott sagði hún: „En sko, ég held að það sé bara tekið við ökuskírteinisumsóknum til klukkan hálf tólf." Ég hváði og muldraði eitthvað á þá leið hvers konar skrifstofa væri einungis opin til hálf tólf. Stúlkan svaraði kurteislega að reyndar væri opið þar til þrjú en þessi tiltekna þjónustu væri bara veitt til hálf tólf. Ég hugsaði mig aðeins um, þakkaði stúlkunni fyrir og gekk út. Ég var þó ekki fyllilega sáttur við þessar málalyktir þannig að ég hringdi í sýslumanninn í Kópavogi og fékk staðfest það sem ég óttaðist. Ég hafði farið fýluferð úr vinnunni.

Strax eftir helgina fór ég að morgni dags til Kópavogs og gekk frá þessu. Það var lítið mál. Ég fékk bráðabirgðaökuheimild og svo nokkrum vikum seinna heimsent nýtt ökuskírteini. Ökuskírteini sem gildir til ársins 2058! Það þótt mér einkennilegt. En enn einkennilegra fannst mér þó að hafa ekki getað sótt um ökuskírteini í mínu nágrenni. Né neins staðar á höfuðborgarsvæðinu eftir klukkan hálf tólf. Hvernig væri að koma einfaldlega upp þjónustumiðstöðvum þar sem hægt væri að sækja um og nálgast alla þjónustu sem ríki og viðkomandi sveitarfélag veita? Miðstöðvum sem væru opnar frá níu til fimm? Eða jafnvel fara verulega út fyrir kassann og gera fólki kleift að sinna erindum sem þessu á netinu? Það er nú einu sinni 2012.






×