Handbolti

Arnór: Ég hef engar áhyggjur af þessu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Arnór er slæmur í bakinu en ætlar að spila á EM
Arnór er slæmur í bakinu en ætlar að spila á EM Mynd/Stefán
Líkamlegt ástand leikmanna handboltalandsliðsins er nokkuð gott og nánast enginn að glíma við meiðsli sem þarf að hafa áhyggjur af.Helsta áhyggjuefnið er Arnór Atlason sem hefur verið að glíma við brjósklos í talsverðan tíma og er alls ekki nógu góður í bakinu. Alexander Petersson og Ingimundur Ingimundarson eru einnig að glíma við meiðsli.

„Ég finn alveg að ég þarf aðeins að passa mig. Ég er þess utan nýstiginn upp eftir að hafa tognað í kálfa. Ég hef nú minni áhyggjur af því og meiri áhyggjur af bakinu. Það er líka langt síðan ég hef verið í alvöru átökum og ég hef aðeins fundið fyrir því á æfingunum," sagði Arnór sem efast samt ekkert um að hann verði í nógu góðu standi til þess að taka þátt á EM.

„Ég er mjög bjartur á að ég verði með. Annars væri ég ekki að taka þátt í undirbúningnum. Ég þarf samt að passa upp á að fara ekki fram úr sjálfum mér. Ég læt reyna betur á mig í þessum leikjum um helgina og veit betur hvar ég stend eftir þá leiki."

Arnór er ekki í mikilli leikæfingu eftir að hafa aðeins spilað einn leik í síðasta mánuði.

„Mér leið vel í þeim leik og spilaði aðeins sóknarleikinn. Ég gat skotið og leið vel á eftir," sagði Arnór en hvað með varnarleikinn?

„Ég held ég geti vel staðið vörn. Ég hef engar áhyggjur af þessu og held ég verði flottur. Það er alltaf hvíld á milli leikja á EM sem ég get nýtt vel í meðferð. Ég fer ekki í nein maraþonhlaup á þeim dögum," sagði Akureyringurinn Arnór Atlason.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×