Viðskipti innlent

Fataverslun færst til útlanda með umfangsmiklum hætti

Fataverslun hér heima hefur dregist saman um 43%.
Fataverslun hér heima hefur dregist saman um 43%.
Fataverslun hefur dregist gríðarlega saman eftir hrun, eða um 43 prósent að raunvirði. Þetta kom fram í Smásöluvísitala Rannsóknaseturs verslunarinnar sem var birt í fjölmiðlum í gær.

Í morgunkorni greiningadeildar Íslandsbanka segir að það sé líklegt að fataverslun hafi farið úr landi með umfangsmiklum hætti síðustu ár, „því væntanlega eru því takmörk sett hversu mikið heimilin geta dregið úr fatakaupum til lengri tíma litið" segir svo í morgunkorninu.

Fataverslun minnkaði um 16,2% í október einum, miðað við sama mánuð í fyrra á föstu verðlagi, og minnkaði um 12,7% á breytilegu verðlagi á sama tímabili.

Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum minnkaði velta fataverslunar í október um 12,7% frá sama mánuði í fyrra. Verð á fötum hækkaði um 4,2% frá sama mánuði fyrir ári.

Í tilkynningu frá rannsóknarsetri verslunar segir að á fimm ára tímabili, frá október 2007 til október 2012, hafi fataverslun dregist saman um 43% að raunvirði.

„Fyrstu 10 mánuði þessa árs var fataverslun 4% minni en á sama tímabili í fyrra. Verslun með föt hefur því átt erfitt uppdráttar eftir hrun. Verð á fötum hefur samt ekki hækkað umfram almennar verðlagsbreytingar síðastliðið ár," segir svo í tilkynningunni.

Í morgunkorni Íslandsbanka segir að veltutölur úr smásöluverslun segi svipaða sögu og aðrir mælikvarðar á einkaneyslu; að undanfarið hafi dregið úr vexti einkaneyslu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×