Viðskipti innlent

Greining: Seðlabankinn eins og strútur með höfuðið í sandi

Greining Arion banka segir að stýrivaxtahækkun Peningastefnunefndar Seðlabankans í gærdag minni á söguna um strútinn sem stakk höfðinu í sandinn og geymdi hann þar.

Í Markaðspunktum greiningarinnar segir að vaxtahækkunin veki nokkrar furðu þar sem flestir efnahagsþættir séu að þróast til verri vegar sem mælir gegn slíkri hækkun. Hugsanlega hafi nefndarmennirnir einfaldlega verið búnir að bíta það í sig í ljósi fyrri yfirlýsingar að vextir ætti að hækka. Það minni á söguna um strútinn.

Í Markaðspunktunum segir: „Reyndar má segja að það veki nokkra furðu, m.v. rökstuðning ákvörðunarinnar og innihald Peningamála sem birtist samhliða ákvörðuninni í morgun, að nefndin kjósi að hækka vexti nú. Nægir að lesa inngang Peningamála en þar kemur glögglega fram að flestir þættir eru að þróast til verri vega:

„Alþjóðlegar hagvaxtarhorfur hafa heldur versnað og óvissa aukist frá útgáfu Peningamala í ágúst. Horfur um viðskiptakjör í ár og útflutningsvöxt á spátímanum í heild hafa því versnað. Gengi krónunnar hefur einnig lækkað nokkuð frá því í ágúst eftir að hafa hækkað síðan í apríl sl."

Þá segir enn fremur:

„Nýjustu vísbendingar gefa til kynna hægari bata á vinnumarkaði en áður var gengið út frá, þótt atvinnuleysi haldi áfram að minnka."

„Verðbólga hefur reynst minni en spáð var í ágúst en horfur á spátímanum eru hins vegar taldar svipaðar og þá. Þar vegast annars vegar á áhrif minni verðbólgu við upphaf spátímans og meiri slaki í þjóðarbúinu og hins vegar áhrif lægra gengis krónunnar og meiri hækkana óbeinna skatta í byrjun næsta árs en áður hafði verið gert ráð fyrir."

Í raun má spyrja sig hvort að meirihluti nefndarmanna hafi einfaldlega verið búinn að bíta það í sig, í ljósi þeirra orða sem hafi verið látin flakka bæði í yfirlýsingu nefndarinnar sem og á síðasta vaxtaákvörðunarfundi, að vextir myndu hækka, og á þar sagan af strútnum sem stakk hausnum ofan í sandinn og geymdi hann þar e.t.v. ágætlega við hér."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×