Viðskipti innlent

FME: Ekkert athugavert við lokað útboð hjá Eimskip

Fjármálaeftirlitið (FME) fann ekki dæmi þess að viðskipti hafi verið framkvæmd á grundvelli innherjaupplýsinga í lokuðu útboði á hlutabréfum í Eimskip sem fram fór dagana 23. og 25. október s.l.

Þetta kemur fram á vefsíðu eftirlitsins. Þar segir að í kjölfar ábendinga sem bárust FME varðandi útboðið, fóru fulltrúar þess á vettvang og öfluðu gagna þann 29. október hjá umsjónaraðilum útboðsins, Straumi fjárfestingabanka hf. og Íslandsbanka hf. Einnig var aflað upplýsinga hjá öðrum aðilum. Sem fyrr segir kom ekkert athugavert í ljós.

„Fjármálaeftirlitið vekur athygli á mikilvægi þess að þátttakendum í lokuðum útboðum sé gert ljóst fyrirfram um takmarkanir og skilmála, t.d. hvort fyrirvarar við tilboð séu heimilaðir. Slíkt treystir tiltrú fjárfesta á að allir sitji við sama borð og er í samræmi við góða viðskiptahætti," segir á vefsíðu FME.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×