Viðskipti innlent

Fyrrverandi bankastjóri telur sig eiga inni yfir 100 milljónir

Magnús Halldórsson skrifar
Ragnar Önundarson var eitt sinn bankastjóri Íslandsbanka.
Ragnar Önundarson var eitt sinn bankastjóri Íslandsbanka.
Ragnar Önundarson telur sig eiga inni yfir 100 milljónir króna hjá Eftirlaunasjóði starfsmanna Glitnis, en skuldbindingar sjóðsins voru færðar til Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda eftir hrun bankans. Málið er að öllum líkindum á leið fyrir dómstóla.

Með bréfi 27. janúar 2009 tilkynnti Fjármálaeftirlitið um að Eftirlaunasjóður starfsmanna Glitnis uppfyllti ekki skilyrði laga til að hafa starfsleyfi sem lífeyrissjóður. Annars vegar var það vegna þess að fjöldi greiðenda í sjóðinn var ekki nægilegur og hins vegar þar sem bakábyrgð Glitnis á sjóðnum féll niður við fall bankans.

Af þessum ástæðum fól FME stjórn sjóðsins að koma honum í skjól, og var hann í framhaldi færður til Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda. Sjóðfélagar fengu bréf 27. september 2010 þar sem þeim var tilkynnt um að sameiningin við söfnunarsjóðinn væri um garð gengin, en tekið var fram sérstaklega að vegna framkominnar kröfu eins sjóðfélaga um aukin lífeyrisréttindi, og til að mæta ófyrirséðum leiðréttingum, þótti rétt að leggja 150 milljónir til hliðar í varasjóð. Eignir sjóðsins voru um 600 milljónum umfram skuldbindingar miðað við stöðuna í lok árs 2009.

Þessi krafa er frá Ragnari Önundarsyni, fyrrum bankastjóra Íslandsbanka og ráðgjafa. Ragnar vildi ekki koma fram í viðtali vegna þessa, en staðfesti að hann teldi sig eiga frekari réttindi hjá Eftirlaunasjóðnum. Það byggir hann á ráðgjöf frá tryggingastærðfræðingum og endurskoðanda, en þessi krafa hefur ekki verið samþykkt og hefur henni m.a. verið vísað frá gerðardómi á fyrri stigum.

Tekið er sérstaklega fram í bréfinu til sjóðfélaga að ef yrði afgangur í varasjóðnum, eftir uppgjör vegna útistandandi mála verður honum útdeilt á séreignareikning sjóðfélaga Eftirlaunasjóðsins. Áunnin réttindi sjóðfélaga skerðast hins vegar ekki, jafnvel þó málin fari svo að lokum að Ragnar fái sitt fram.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×