Tæknifyrirtækið Microsoft beinir spjótum sínum að Google í nýrri auglýsingaherferð. Leitarvélin er sökuð um óheiðarleg vinnubrögð og er Ský-þjónusta Google gagnrýnd harkalega.
Microsoft hefur verið undir þó nokkrum þrýstingi síðan Google opinberaði Google Docs notendaviðmótið. Vefforritið gerir notendum kleift að rita, breyta og vista gögn í gegnum internetið. Gögnin eru vistuð á netþjónum Google og því er hægt að nálgast skjölin hvar sem er.
„Hvað gerist þegar stærsta auglýsingafyrirtæki veraldar reynir fyrir sér í hugbúnaðarþróun?" spyr Microsoft.
Microsoft sakar Google um óvönduð vinnubrögð og segir að vefforritin séu óstöðug. Þá er Google sagt vanrækja minni fyrirtæki og einstaklinga með því að gefa út hálfkláruð forrit.
Á vefsíðu Microsoft kemur fram að Google geti ekki boðið upp á jafn góða þjónustu og notendaviðmót og Microsoft.
Hægt er að sjá auglýsinguna hér fyrir ofan.
