Viðskipti innlent

FME: Það var skynsamlegt að bíða eftir dómi Hæstaréttar

Fjármálaeftirlitið segir að skynsamlegt hafi verið að bíða eftir gengislánadómi Hæstaréttar áður en farið var í að reikna út áhrif dóms af því tagi. Þetta segir í frétt á heimasíðu stofnunarinnar í tilefni fréttar Stöðvar 2 og Vísis í gærkveldi þar sem sagt var að Helgi Hjörvar, formaður efnahags og viðskiptanefndar Alþingis, hefði í þrígang beðið Fjármálaeftirlitið að reikna út áhrif gengislánadóms Hæstaréttar áður en hann féll.

Á heimasíðu FME segir að umrædd ósk formanns efnahags- og viðskiptanefndar hafi einungis lotið að því að stofnunin myndi „meta áhrif þess á fjármálakerfið ef dómur Hæstaréttar yrði í samræmi við niðurstöðu fræðigreinar Ásu Ólafsdóttur, lektors við lagadeild HÍ, sem birtist í nýjasta tölublaði Úlfljóts."

„Í ljósi þess að slíkt mat er bæði gríðarlega tímafrekt og kostnaðarsamt fyrir alla hlutaðeigandi tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun um að bíða fremur eftir dómi Hæstaréttar sem var á næsta leiti. Þessi ákvörðun reyndist skynsamleg ekki síst vegna þess að forsendur nýfallins dóms Hæstaréttar eru töluvert frábrugðnar þeim sem lagðar eru til grundvallar í fræðigreininni," segir ennfremur.

Að auki segir að Fjármálaeftirlitið vinni nú hörðum höndum að því að greina forsendur dómsins og móta aðferðafræði sem unnt sé að nota við endurreikning útlánasafna lánastofnana til að meta áhrif hans á bókfært virði þeirra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×