Viðskipti innlent

Nær 80.000 manns eiga ekki krónu á bankareikningi

Nærri 80.000 einstaklingar á Íslandi áttu ekki krónu inni á bankareikningum sínum í árslok á síðasta ári. Tæplega 7.000 manns áttu hinsvegar 252 milljarða kr. á sínum reikningum en sú upphæð nemur tæplega helmingi af öllum innistæðunum.

Þetta kemur fram í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn frá Margréti Tryggvadóttur þingmanni Hreyfingarinnar á Alþingi. Margrét vildi vita hvernig innistæður á bankareikningum skiptust á milli landsmanna.

Í svarinu kemur m.a. fram að rúmlega 175.000 manns áttu samtals 257 milljarða kr. eða rúmlega 50% af innistæðunum. Þessir einstaklingar eiga að meðaltali um 1,5 milljónir kr. hver á reikningum sínum.

Ekki er gott að sjá fjölda þeirra sem eiga mestu innistæðurnar í svarinu þar sem ekki eru birtar tölur ef færri en tíu einstaklingar eru í hverjum flokki innistæða en þær eru flokkaðar eftir upphæðum.

Hinsvegar má geta sér til að ekki færri en einn einstaklingur eða par og ekki fleiri en fimm einstaklingar eða pör eiga milljarð króna eða meira hver/hvert inni á sínum bankareikningum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×