Viðskipti innlent

Már bendir á alvarlegan galla í bankasamstarfi ESB

Már Guðmundsson seðlabankastjóri hefur bent á það sem hann telur alvarlegan galla í hugmyndum Evrópusambandsins um nánara bankasamstarf milli landanna innan evrusvæðisins, m.a. með sameiginlegu fjármálaeftirliti á vegum seðlabanka Evrópu.

Már ræddi þetta mál í ræðu sem hann hélt í Abu Dhabi í síðustu viku. Í ræðu sinni sagði Már að í hugmyndirnar skorti ákvæði um lánveitenda til þrautavara í erlendum gjaldeyri.

Már bendir á að í fjármálakreppunni sem hófst árið 2008 hafi gjaldmiðlaskiptasamningar þeir sem gerðir voru bjargað mörgum bönkum frá falli. Áhlaup var gert á þessa banka hvað varðaði eignir þeirra í dollurum.

„Mörg stór nöfn í bankaheimi Evrópu væru ekki til staðar í dag nema vegna þeirra gjaldmiðaskiptasamninga sem Bandaríkjamenn veittu seðlabanka Evrópu, Englandsbanka og svissneska seðlabankanum," segir Már.

Már segir að margt í hugmyndunum um nánara bankasamstarf sé mjög skynsamlegt eins og sameiginlegt fjármálaeftirlit og innistæðutryggingar. Hinsvegar sé skortur á fyrrgreindum lánveitenda til þrautavara í erlendum gjaldeyri skarð í þessum fyrirhugaða varnarmúr Evrópu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×