Bæði Landssamband íslenskra verslunarmanna og Samiðn vilja að kjarasamningar sem ASÍ gerði í maí í síðastliðnum haldi, en tekin verður ákvörðun um það á morgun hvort samningunum verður sagt upp eða ekki. ASÍ mun heldur formannafund i dag þar sem sjónarmiðin eru rædd.
Í ályktun miðstjórnar Samiðnar segir að samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands hafi kaupmáttur launa almennt aukist á samningstímanum meðal iðnaðarmanna. Ríkisstjórnin hafi staðið við nokkur veigamikil atriði í yfirlýsingu sinni vegna kjarasamninganna, en verulega skorti á að staðið hafi verið við gefin fyrirheit varðandi eflingu atvinnulífs og jöfnun lífeyrisréttinda. Miðstjórn Samiðnar skorar á ríkisstjórnina að breyta orðum í athafnir og standa við gefin fyrirheit um eflingu atvinnulífs og jöfnun lífeyrisréttinda.
Landssamband íslenskra verslunarmanna tekur í sama streng og segist stjórn landssambandsins vilja benda sérstaklega á að sú aðför sem hafi verið gerð að almennu lífeyrissjóðunum gangi þvert á gefin fyrirheit um jöfnun lífeyrisréttinda á íslenskum vinnumarkaði, sem ríkisstjórnin lofaði að hafist yrði handa um. Þá muni það lengi í minnum haft að ríkisstjórn, sem kenni sig við norræna velferð, skuli svíkja gefin loforð um þá hækkun atvinnuleysisbóta og aðrar hækkanir almannatrygginga, sem um hafi verið samið.

