Viðskipti innlent

TVG-Zimsen færir út kvíarnar

Mikill vöxtur hefur verið meðal erlendra aðila í tökum og gerð kvikmynda, auglýsinga og tónleika hér á landi og hefur TVG–Zimsen sett sér háleit markmið um að þjónusta fyrirtæki á þessu sviði í flutningum og tengdri þjónustu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem TVG-Zimsen hefur sent frá sér.

„Sem leið að þeim markmiðum hefur TVG-Zimsen tekið yfir starfsemi flutningsmiðlunarinnar Vectura. Stofnandi hennar, Þórður Björn Pálsson, mun hefja störf hjá TVG-Zimsen frá og með 20. febrúar og byggja þar upp sérhæfða deild á þessu sviði en hann hefur 15 ára reynslu í að þjónusta þennan geira hér á landi.

Vectura hefur haft afar sterka stöðu í allri sérhæfingu er snýr að kvikmynda-, auglýsinga- og tónleikageiranum. Það er mikil gróska í kvikmyndagerð á Íslandi og erlend kvikmyndafyrirtæki hafa sótt í auknum mæli hingað til lands. Það má fastlega búast við auknum verkefnum, stórum og smáum í þessum geira á næstu misserum. Vinsældir Íslands hafa aukist ekki síst vegna hinnar stórbrotnu og sérstöku náttúru sem og gengisþróunar sem er hagstæð fyrir erlenda aðila. Einnig bjóða íslensk stjórnvöld upp á hagstætt skattaumhverfi t.d. endurgreiðslu hluta framleiðslukostnaðar hér á landi sem kemur sér vel fyrir erlend fyrirtæki," segir Björn Einarsson, framkvæmdastjóri TVG-Zimsen, í tilkynningu.

Þá segir Björn að búast megi við að erlent auglýsingagerðarfólk muni leita í meira mæli til Íslands og að með tilkomu Hörpu muni tónleikahald erlendra listamanna stóraukast.

,,Þá verðum við í samstarfi við sérhæfðar erlendar flutningsmiðlanir sem munu bóka inn í flutningakerfin okkar," segir Björn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×