Viðskipti innlent

Ein stærstu flugvélakaup í Íslandssögunni

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Björgólfur Jóhannsson er forstjóri Icelandair Group.
Björgólfur Jóhannsson er forstjóri Icelandair Group. Mynd/ GVA.
Kaupin á Boeing 737 vélunum sem Icelandair Group hefur ákveðið að fara í eru líklega þau stærstu í sögunni, segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri félagsins. „Líklega eru þau það," segir hann í samtali við Vísi. „Án þess að ég hafi farið mikið ofan í söguna hvað það varðar," segir hann. Fyrirtækið tilkynnti í morgun að ákveðið hefði verið að ráðast í kaup á tólf 737 MAX8 og 737 MAX9 vélar með kauprétt á tólf til viðbótar. Verðmæti þessa tólf véla er 180 milljarðar króna.

„Að vísu voru það stór kaup þegar félagið fór í sjö fimmurnar á sínum tíma," bætir hann við. „En þetta eru stór kaup og stór ákvörðun," segir Björgólfur. Hann segir að þessi framleiðsla komi ekki út fyrr en 2017 eða 2018, þannig að ekki sé von á flugvélunum strax.

Björgólfur segir að kaupin séu fyrirhuguð til að tryggja framtíð Icelandair. „Tryggja viðgang þess og vöxt inn í framtíðina og við teljum það að þessar vélar komi til með að ganga með sjö fimmunum sem félagið á nú þegar og þær muni fitta vel saman til þess að efla félagið og tryggja frekari vöxt," segir hann. Hann bendir á að lykillinn að vexti í ferðaþjónustu, sé það að flug sé til staðar og aukin tíðni sé í ferðum, til og frá landinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×