Viðskipti innlent

Seðlabankastjóri bjóst við hækkuninni

Már Guðmundsson seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri.
Matsfyrirtækið Fitch hækkaði lánshæfiseinkunnir Íslands vegna langtíma- og skammtíma skuldbindinga í erlendri mynt um einn flokk í gær. Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, segist hafa búist við og beðið eftir hækkuninni.

„Sérstaklega eftir að við fórum á markað í júní og í ljósi þess að hagvöxtur hefur verið að taka við sér og ýmislegt hefur verið að ganga vel," segir Már.

Og hann segir tíðindin merk.

„Þetta er áberandi í dag, í t.d. blöðum eins og Financial Times og víðar. Það taka allir eftir þessu á markaðnum. Þetta er að gerast á sama tíma og það er verið að lækka nánast alls staðar annars staðar í kringum okkur," segir Már.

Már bendir á að Fitch telji að það séu sáralitlar líkur á að við verðum dregin inn í samdrátt á næstunni jafnvel þó að það verði einhverjir erfiðleikar áfram á Evrusvæðinu.

Þá er landið komið í fjárfestingarflokk hjá öllum stóru matsfyrirtækjunum sem gerir það að verkum að auðveldara verður að afla lánsfjár erlendis er þörf krefur. „Og það aftur auðveldar það að afnema höftin og þvíumlíkt," segir Már.

Már reiknar ekki með að matsfyrirtækin hækki einkunnir Íslands enn frekar í allra nánustu framtíð.

„Ég held að það gerist ekki alveg strax að við förum að hækka meira. Enda er þetta nokkuð góð viðspyrna sem við erum komin þarna með," segir Már.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×