Viðskipti innlent

Endurútreikningar á bílalánum: Fulltrúar Landsbankans kallaðir á fund

Höskuldur Kári Schram skrifar
Fulltrúar Landsbankans og Lýsingar voru kallaðir á fund efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í morgun vegna endurútreikninga á bílalánum. Ekki liggur fyrir hvort Landsbankinn áfrýi nýlegum dómi héraðsdóms sem komst að þeirri niðurstöðu að bankanum hafi verið óheimilt að endurreikna vexti afturvirkt.

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu í síðasta mánuði í máli Borgarbyggðar gegn Arion banka að bankanum væri óheimilt að reikna afturvirka vexti á gengistryggðu láni.

Landsbankinn og lýsing hafi litið svo á að niðurstaða hæstaréttir eigi einungis við húsnæðislána eða langtímalán en ekki styttri lán eins og t.d. bílalán.

Héraðsdómur Reykjavíkur komst hinsvegar að þeirri niðurstöðu í síðustu viku að dómur Hæstaréttar eigi einnig við um bílalán.

Fulltrúar Landsbankans og Lýsingar gengu á fund efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í morgun til að gera grein fyrir sinni afstöðu í málinu.

„Við erum að skoða það. Málið er að þessi dómur sem féll í síðustu viku er ekki einn af þessum ellefu málum sem menn hafa verið að tala um að þyrfti að setja fram til þess að fá botn í málið. Þetta er að stofninum til eldra mál. Þannig að menn komu ekki málsatriðum að sem menn hafa séð stæðu til að gera í framhaldi af hæstaréttardómum á þessu ári," segir Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans.

Steinþór segir að þetta muni skýrast á næstunni.

„Við erum byrjaði að endurreikna. Við byrjuðum á lengstu lánunum og síðan er ætlunin að vinna sig í gegnum safnið smátt og smátt. En stærstu hagsmunir fyrir viðskiptavini eru í lengstu lánunum og þar munum við byrja."

„Þetta er gríðarlegur fjöldi hjá okkur sem gæti verið til endurútreiknings og þótt við værum öll að vilja gerð þá vinnst það ekki á stuttum tíma. Við þurfum að byrja, forgangsraða og vinna okkur í gegnum þetta. Þannig að við erum byrjuð á langtímalánunum og svo skýrist myndin eftir því sem tíminn líður."

Þannig að þið ætlið að fara í endurútreikning á skammtímalánum? „Það eru miklar líkur á því að styttri lánin detti þarna undir líka, já." Hvenær skýrist það betur? „Það er ekki gott að segja. Það kemur í ljós á næstunni."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×