Viðskipti innlent

Óþarfur landbúnaðarsjóður kostar ríkið 1.400 milljónir á ári

Ríkisendurskoðun telur að núverandi starfsemi Fóðursjóðs sé dæmi um óþarfa stjórnsýslu. Óverulegar tekjur renna í sjóðinn þar sem fóðurtollar hafi í reynd verið afnumdir á Evrópska efnahagssvæðinu (EES). Að mati Ríkisendurskoðunar ber að leggja sjóðinn niður en hann fær 1.400 milljónir kr. á fjárlögum í ár.

Þetta segir á vefsíðu Ríkisendurskoðunar. Þar hefur verið birt skýrsla um Fóðursjóðinn sem segir að í raun sé sjóðurinn algerlega gagnslaus milliliður. Kerfið virkar þannig að innflytjandi borgar fóðurtoll hjá tollinum og fer svo með kvittunina í Fóðursjóð til að fá tollinn endurgreiddan að fullu.

Á vefsíðu Ríkisendurskoðunar segir: „Fram kemur að innflytjendur fái tolla á fóður fellda niður samkvæmt flóknu ferli sem útheimti tímafreka skjalagerð og umsýslu, bæði af þeirra hálfu og opinberra aðila. Ekki verði séð að þessi vinna þjóni nokkrum tilgangi.

Að mati Ríkisendurskoðunar er núverandi starfsemi Fóðursjóðs dæmi um óþarfa stjórnsýslu og leggur stofnunin til að hann verði lagður niður og umræddir tollar formlega afnumdir. Tollar á fóðurblöndur frá löndum utan EES eigi að renna beint í ríkissjóð."

Í skýrslunni kemur fram að í þessa hringekju hafi ríkið, eða landbúnaðarráðuneytið,  sett 1.400 milljónir króna í fyrra og ætlar að setja aðrar 1.400 milljónir króna í ár. Það dugir þó ekki til því yfir 100 milljóna króna halli var á rekstri sjóðsins í fyrra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×