Viðskipti innlent

Ætla að koma 3.700 atvinnulausum í vinnu eða endurhæfingu

Ætlunin er að koma á fót verkefni sem myndi veita 3.700 atvinnulausum vinnu eða starfsendurhæfingu á næsta ári.

Í dag verður undirrituð samstarfsyfirlýsing milli velferðarráðuneytisins, fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Alþýðusambands Íslands, Bandalags háskólamanna, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka atvinnulífsins, Vinnumálastofnunar, VIRK starfsendurhæfingar-sjóðs og Starfs vinnumiðlunar og ráðgjafar um nýtt átaksverkefni gegn atvinnuleysi.

Í tilkynningu segir að markmið verkefnisins er að virkja atvinnuleitendur sem hafa fullnýtt eða munu fullnýta rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins til þátttöku að nýju á vinnumarkaði. Samtals er um að ræða 3.700 atvinnuleitendur og er markmiðið að þeim verði öllum boðin vinna eða starfsendurhæfing á árinu 2013. Þannig á að tryggja að enginn falli af atvinnuleysisbótum án þess að fá slíkt tilboð.

Áætlað er að 60% taki tilboði um vinnu og þurfa samtals 2.200 sex mánaða störf að vera í boði á árinu 2013. Sveitarfélög munu að lágmarki skapa 660 starfstengd vinnumarkaðsúrræði (30%) á tímabilinu, ríki 220 starfstengd vinnumarkaðsúrræði (10%) og almenni vinnumarkaðurinn 1.320 starfstengd vinnumarkaðsúrræði (60%).

Jón Gnarr, borgarstjóri, og Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, munu undirrita samning um útfærslu verkefnisins í Reykjavík en borgin mun skapa 325 störf.

Alls munu verða til rúmlega 1.000 störf fyrir langtímaatvinnuleitendur í Reykjavík.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×