Viðskipti innlent

Eigendur Skeljungs vilja stækka hluthafahópinn

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Einar Örn Ólafsson, forstjóri Skeljungs.
Einar Örn Ólafsson, forstjóri Skeljungs.
„Rætt hefur verið um að skrá fyrirtækið í Kauphöllina þannig að það hefur verið stemmning fyrir því að breikka hluthafahópinn," segir Einar Örn Ólafsson, forstjóri Skeljungs, spurður um fréttir þess efnis að hlutabréf í fyrirtækinu séu komin í söluferli hjá verðbréfafyrirtækinu Virðingu.

Einar Örn vísar því á bug að fyrirtækið sé í söluferli, en staðfestir að Virðing og fleiri fyrirtæki á fjármálamarkaði hafi lýst yfir áhuga á að annast viðskipti með bréf í Skeljungi séu þau yfirleitt til sölu.

Skeljungur er í mjög traustum rekstri. Hagnaður fyrirtækisins nam 629 milljónum króna á síðasta ári. Eigið fé var 3,7 milljarðar króna um áramót og eiginfjárhlutfallið 29,7 prósent. Rekstrartekjurnar voru 31,6 milljarðar króna á árinu 2011.

Hjón á fertugsaldri, þau Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir og Guðmundur Þórðarson, eru eigendur 94,7 prósent hlutafjár í Skeljungi. Aðrir hluthafar eiga 5,3 prósent.

Fréttastofunni hafa borist nokkrar ábendingar um að Skeljungur sé til sölu. Einar Örn segir hins vegar að engar viðræður séu í gangi núna um sölu á hlut í fyrirtækinu.

„Eins og þetta blasir við mér þá var það aldrei inni í myndinni að selja meirihluta. Það hafa einhverjir komið að máli við hluthafana og það voru einhverjar viðræður í gangi að breikka hluthafahópinn með það fyrir augum að hafa hann stærri þegar við færumst nær því að skrá fyrirtækið á hlutabréfamarkað. Hingað til hafa þessar viðræður ekki leitt til neins og ég veit að það eru engar viðræður í gangi núna," segir Einar Örn. thorbjorn@stod2.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×