Viðskipti innlent

Vandamálin eru þegar farin að hrannast upp

Magnús Halldórsson skrifar
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Vandamálin á fasteignamarkaði eru farin að hrannast upp, segir forseti Alþýðusambands Íslands, en hann segir mörg dæmi þess að ungt fólk hafi hvorki efni á því að leigja húsnæði né kaupa.

Fasteignaverð hefur verið að hækka að undanförnu, og fjárfestar eru farnir að veðja á að verðið muni hækka umtalsvert á næstu árum. Eins og fréttastofa hefur greint frá undanfarna daga, hafa fjárfestar, þar á meðal lífeyrissjóðir, einkahlutafélög og tryggingafélög, í gegnum sérhæfða fasteignasjóði, verið að kaupa fasteignir á höfuðborgarsvæðinu, bæði atvinnuhúsnæði og íbúðir, fyrir um 40 milljarða króna undanfarin misseri.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, segir að staðan á fasteignamarkaði sé orðin alvarleg, vegna hárrar leigu og erfiðleika við að fjármagna kaup. Augljóst ójafnvægi sé á markaði sem geti haft alvarlegar afleiðingar.

„Þetta er ekki að verða vandamál, heldur er þetta orðið vandamál. Mjög margir hafa hvorki efni á því að leigja eða kaupa, og vandamálin vegna þessa hrannast upp," segir Gylfi.

Fjármögnun húsnæðis er eitt af því sem Gylfi segir að sé fólki erfið. Dæmið lítur oft svipað þessu út.

Íbúð kostar 21 milljón, hámarkslán er 16,8 milljónir og því þarf kaupandi að leggja fram 4,2 milljónir króna.

Þetta fé eiga margir ekki til, ekki síst þar sem mánaðarleg greiðslubyrði á leigumarkaði er þyngri en afborgun af húsnæðisláni, í flestum tilvikum, og því er söfnun sparnaðar oft erfið og mjög hæg. Kaupendur eigna eru því oftast nær að fá lán frá aðstandendum, og þetta segir Gylfi að sé einfaldlega ekki í boði fyrir þá sem ekki eigi vel stæða að, og ýti undir stéttaskiptingu.

„Það þarf að koma hér upp húsnæðisfjármögnunarkerfi þar sem leigutakar geta leigt til lengri tíma, og búa við öruggara umhverfi þegar kemur að leigunni. Þannig að það sé ekki hægt að henda því út við fyrsta hentugleika," segir Gylfi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×