Viðskipti innlent

Gamli Landsbankinn á 200 milljarða umfram Icesave-skuldina

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Slitastjórn gamla Landsbankans.
Slitastjórn gamla Landsbankans.
Eignir þrotabús gamla Landsbankans voru í lok september um 200 milljörðum krónum hærri en forgangskröfurnar, það er Icesave innlánin, nema. Þetta kom fram á kröfuhafafundi bankans í morgun.

Á fundinum kynnti slitastjórn Landsbanka Íslands kröfuhöfum uppfærðar upplýsingar um áætlað virði eignasafns bankans miðað við stöðuna í lok september. Umtalsverður árangur hefur náðst í endurheimtum og nam raunaukningin á áætluðu verðmæti eigna milli ársfjórðunga tæplega 11 milljörðum króna. Heildaraukningin að teknu tilliti til breytinga á gengi íslensku krónunnar gagnvart helstu gjaldmiðlum nam tæplega 21 milljarði króna.

Í tilkynningu á vef slitastjórnar kemur fram að áætlað verðmæti eigna gamla Landsbankans hefur frá upphafi farið stighækkandi, en um þessar mundir eru liðin rúmlega 4 ár frá falli bankans. Ef miðað er við fastsett gengi íslensku krónunnar þann 22. apríl 2009 gagnvart þeim erlendum myntum sem eignasafn bankans samanstendur af hefur áætlað verðmæti eignasafnsins hækkað, að meðtöldum þremur hlutagreiðslum til forgangskröfuhafa, úr 1.104 milljörðum króna þann 22. apríl 2009 í 1.507 milljarða króna þann 30. september 2012, eða um samtals 403 milljarða króna eða sem nemur um 36%. Áætlað virði eignasafnsins er því nú um 200 milljörðum krónum hærra en áætluð fjárhæð forgangskrafna.

Slitastjórn LBI greiddi út hlutagreiðslur til forgangskröfuhafa í slitameðferðinni í þriðja sinn þann 5. október síðastliðinn. Samtals var greitt út jafnvirði nálægt 82 milljörðum króna. Í heild hefur því slitastjórn greitt út að jafnvirði nálægt 660 milljörðum króna samanlagt í þremur hlutagreiðslum. Það svarar samtals til um 50% af fjárhæðum forgangskrafna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×