Viðskipti innlent

Mælir gegn kaupum í útboði Vodafone

MÞL skrifar
Hlutafjárútboð Vodafone fer fram 3. desember.Fréttablaðið/Stefán
Hlutafjárútboð Vodafone fer fram 3. desember.Fréttablaðið/Stefán
IFS greining telur að fjárfestar sem hugsa til lengri tíma eigi að halda að sér höndum í útboði á hlutabréfum í Vodafone sem fram fer þann 3. desember næstkomandi.

IFS metur hluti í félaginu á 25,1 krónu og spáir því að eftir níu til tólf mánuði verði gengið 28,1 króna á hlut. Útboðsgengið verður aftur á móti á bilinu 28,8 til 33,3 krónur.

Í verðmati IFS segir að verðlagningin í útboðinu bendi til þess að rekstur Vodafone hafi talsverð vaxtartækifæri á næstunni. IFS telur það hins vegar ekki réttlætanlegar forsendur og bendir meðal annars á að fyrirtækið sé lítið og í atvinnugrein sem breytist hratt og ófyrirsjáanlega.

Á móti bendir IFS þó meðal annars á að fáir fjárfestingarkostir séu innan gjaldeyrishaftanna auk þess sem félagið sé hið fyrsta í sínum geira sem hægt er að fjárfesta í.

Bendir IFS á að tekjur félagsins hafi verið nokkurn veginn flatar síðustu fjögur ár og ekki haldið í við verðbólgu. Þá hafi ekki verið mörkuð arðgreiðslustefna fyrir félagið en benda má á að til stendur að láta nýja eigendur félagsins, að loknu útboði, móta framtíðarstefnu þess.

Miðað við virðismat IFS er hlutafjárvirði Vodafone 8,5 milljarðar króna en til samanburðar gerir útboðsgengið ráð fyrir hlutafjárvirði upp á 9,8 til 11,3 milljarða. Telur IFS að niðurstöður sínar séu sambærilegar við það sem gerist hjá samanburðarhæfum, alþjóðlegum fjarskiptafyrirtækjum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×