Handbolti

Tap fyrir Dönum í úrslitaleiknum

Róbert var mjög sterkur í íslenska liðinu í dag.
Róbert var mjög sterkur í íslenska liðinu í dag. Mynd/Ole Nielsen
Rúmlega 6.000 áhorfendur mættu á leik Danmerkur og Íslands á æfingamóti í Danmörku í dag. Þetta var úrslitaleikur mótsins og höfðu Danir betur, 31-27.

Danir byrjuðu leikinn mun betur og komust fljótlega í 4-1. Íslenska liðið hleypti danska liðinu þó aldrei of langt fram úr sér.

Eftir því sem leið á hálfleikinn færðist íslenska liðið í aukana og skömmu fyrir hlé komst það yfir í fyrsta skipti, 13-14.

Danir komu til baka, skoruðu tvö hraðaupphlaupsmörk undir lokin og leiddu 16-14 í leikhléi. Leikur íslenska liðsins ágætur en engin markvarsla. Guðmundur hvíldi Guðjón Val alveg í fyrri hálfleiknum. Róbert Gunnarsson var markahæstur með 4 mörk í hálfleiknum.

Danir voru með frumkvæðið framan af síðari hálfleik en líkt og í fyrri hálfleik kom íslenska liðið til baka og byrjaði að anda ofan í hálsmálið á heimamönnum.

Strákarnir náðu að minnka muninn í eitt mark, 23-22, en þá fór aftur að draga í sundur með liðunum. Íslenska liðið náði aldrei að brúa bilið og Danir fögnuðu því sigri.

Ásgeir Örn Hallgrímsson og Róbert Gunnarsson áttu mjög góðan leik í liði Íslands. Tæknifeilar íslenska liðsins voru margir í leiknum og markvarslan ekki nógu góð.

Mörk Íslands: Ásgeir Örn Hallgrimsson 7, Róbert Gunnarsson 6, Arnór Atlason 5, Þórir Ólafsson 4, Vignir Svavarsson 2, Oddur Gretarsson 2, Aron Pálmarsson 1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×