Viðskipti innlent

HSÍ hafði betur gegn Kaupþingi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Íslenska karlalandsliðið í handbolta.
Íslenska karlalandsliðið í handbolta. Mynd/ Stefán.
Héraðsdómur Reykjavíkur viðurkenndi í morgun að tólf milljóna króna krafa sem Handknattleikssamband Íslands gerði í þrotabú Kaupþings yrði viðurkennd sem almenn krafa. Þá var jafnframt viðurkennt að Hanknattleikssambandið mætti skuldajafna þeirri kröfu við kröfu sem Kaupþing átti á Handknattleikssambandið vegna yfirdráttarskuldar.

Slitastjórn Kaupþings viðurkenndi ekki nema hluta af kröfunni, eða um 2 milljónir af 12. Taldi slitastjórnin að vilyrði fyrir 10 milljóna króna greiðslu hefði verið vilyrði fyrir gjöf og því gæti HSÍ ekki krafist greiðslu á henni.

Héraðsdómur Reykjavíkur kemst hins vegar að þeirri niðurstöðu að Kaupþing hafi haft verulegan hag af samningi sem gerður var milli Kaupþings og HSÍ árið 2006. Með honum hafi Kaupþingi verið gert kleift að tengja sig og starfsemi sína við HSÍ, svo og íslenska landsliðinu í handknattleik, með almennum hætti og í kynningarefni sínu eða á heimasíðu.

Því væri ekki hægt að líta á loforð Kaupþings um styrk til handa HSÍ sem einhliða örlætisgerning. Því var krafa HSÍ á hendur Kaupþingi viðurkennd sem almenn krafa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×