Viðskipti innlent

Góð afkoma hjá Valitor - helmingur tekna frá útlöndum

Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor.
Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor.
Afkoma Valitor á árinu 2011 var jákvæð um 1.224 milljónir króna eftir skatta samanborið við 1.044 milljónir á árinu 2010. Í tilkynningu segir að arðsemi eigin fjár hafi verið 18% á árinu og eiginfjárhlutfall samkvæmt Basel II um 32% í árslok.

Rekstrartekjur félagsins námu 9.480 milljónum króna og lækkuðu um rúmlega einn milljarð eða um 10% frá fyrra ári. Rekstrargjöld voru á sama tíma 7.831 milljón króna og lækkuðu um 900 milljónir milli ára. Rekstrarhagnaður ársins 2011 nam því 1.649 milljónum en var um 1.812 milljónir árið 2010.

Helmingur tekna frá útlöndum

„Valitor hefur undanfarin ár byggt upp viðskipti erlendis með því að sjá kaupmönnum fyrir færsluhirðingu í netviðskiptum. Umsvifin hafa vaxið hratt og nema tekjur af þessari starfsemi orðið um helmingi af heildartekjum félagsins. Á árinu 2011 hóf Valitor útgáfu á forgreiddum („prepaid") kortum á fyrirtækjamarkaði í Bretlandi í samstarfi við þarlenda aðila og lofar sú starfsemi góðu," segir einnig.

Ný stjórn Valitor var kjörin á aðalfundi félagsins í gær. Í aðalstjórn voru kjörin Björk Þórarinsdóttir, stjórnarformaður, Anna Rún Ingvarsdóttir, Guðlaug Sigurðardóttir, Arnar Ragnarsson og Guðmundur Þorbjörnsson.

Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor segir að þar á bæ séu menn mjög sáttir við niðurstöðutölur síðasta árs. „Reksturinn gekk samkvæmt áætlunum og fjárhagsstaðan er traust. Það sem helst einkenndi rekstrarárið 2011 var kraftmikil vöruþróun og nýsköpun ásamt frekari styrkingu á innviðum félagsins. Aðhalds var gætt í almennum rekstri en þróunarkostnaður félagsins hefur farið vaxandi samfara kröftugu vöruþróunarstarfi sem hefur m.a. kallað á fjölgun stöðugilda. Áfram var sótt fram á mörkuðum erlendis og það er trú okkar að vöruþróun ásamt eflingu markaðsstarfs ytra myndi sterkan grunn að framtíðartekjumyndun félagsins. Um helmingur af þjónustutekjum Valitor kemur nú þegar af viðskiptum við erlenda viðskiptamenn."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×