Viðskipti innlent

Kröftug hækkun íbúðaverðs næstu ár

Hafsteinn Hauksson, hagfræðingur í greiningardeild Arion banka, kynnti skýrsluna í gær.
Hafsteinn Hauksson, hagfræðingur í greiningardeild Arion banka, kynnti skýrsluna í gær. Fréttablaðið/GVA
Útlit er fyrir að fasteignaverð hér á landi hækki um 8 til 9% á næstu tveimur árum eða sem nemur 4 til 5% raunverðshækkun. Þetta er niðurstaða greiningardeildar Arion banka sem gaf í gær út skýrslu sem nefnist Fasteignamarkaður á göngudeild: Horfur til 2014.

Í skýrslunni eru eftirfarandi þættir sagðir styðja við fasteignaverð á næstu árum. Í fyrsta lagi aukin umsvif í hagkerfinu samhliða vaxandi kaupmætti. Í öðru lagi hagstæð vaxtakjör sem eru ein afleiðing gjaldeyrishaftanna og í þriðja lagi að byggingarkostnaður er enn hár sem dregur úr hvata til nýbygginga.

Á móti eru kröfur um nokkuð eigið fé við fasteignakaup og sú staðreynd að skuldsetning er enn mikil talin vinna á móti batanum á fasteignamarkaði.

Þá telur greiningardeildin að verð ákveðinna gerða fasteigna muni hækka meira en annarra á tímabilinu. Þannig muni verð minni eigna, einkum og sér í lagi í fjölbýli, og eigna í elstu hverfum höfuðborgarsvæðisins hækka af meiri krafti en verð annarra eigna, ekki síst vegna neikvæðrar eiginfjárstöðu nýrra fasteignakaupenda.- mþl






Fleiri fréttir

Sjá meira


×