Viðskipti innlent

Hagnaður Eimskips 2,1 milljarður á síðasta ári

Hagnaður Eimskipafélagsins á árinu 2011 eftir skatta var um 2,1 milljarður króna og rekstrarhagnaður var um 7 milljarðar króna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu. Heildareignir félagsins í lok síðasta árs voru 45 milljarðar króna og var eiginfjárhlutfallið 62,3%. Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips, segir að rekstrarniðurstaða ársins sé í takt við væntingar þrátt fyrir erfitt rekstrarumhverfi hérlendis og erlendis. Stefnt er að því að skrá félagið í Kauphöll Íslands fyrir lok þessa árs og er vinna við undirbúning þess í fullum gangi.

Vaxtaberandi skuldir félagsins á síðasta ári vou 9,8 milljarðar króna og handbært fé var 6,9 milljarðar króna. Flutningamagn í siglingakerfum félagsins á Norður Atlantshafi jókst um rúm 5% á milli ára. Rekstrarhagnaður (EBITDA) á fjórða ársfjórðungi var um 1,4 milljarður króna og hagnaður eftir skatta var um 100 milljónir króna.

„Það er enn á brattann að sækja varðandi reksturinn á Íslandi en hægur bati er í inn- og útflutningi til og frá landinu. Starfsemin hefur gengið vel á öðrum markaðssvæðum félagsins bæði á Norður Atlantshafinu sem og í frystiflutningsmiðlun félagsins víða um heim," segir Gylfi í tilkynningu. „Rekstrarárangur ársins 2011 mun auðvelda Eimskip að fara í nauðsynlegar fjárfestingar við endurnýjun á skipastól félagsins, gámum og öðrum tækjum til að tryggja áreiðanleika og hátt þjónustustig fyrir viðskiptavini félagsins. Eimskip vinnur markvisst að því að auka afkastagetu í siglingakerfum félagsins sem og að þétta þjónustuframboð um allan heim."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×