Viðskipti innlent

Segir að gjaldeyrishöftin séu orðin varanleg

Gjaldeyrishöftin eru orðin varanleg og engin leið er að losna við þau í framtíðinni án verulegrar veikingar á gengi krónunnar.

Þetta er mat greiningar Arion banka á lagasetningunni um að herða á gjaldeyrishöftunum. Seðlabankinn hafi ekki verið sannfærandi í málinu. Fyrst hafi hann sagt að fallandi gengi krónunnar væri tímabundin sveifla en neyddist síðan til að biðja um lagasetningu til að stöðva fallið.

Greiningin segir að þrátt fyrir hábjargræðistíma í sjávarútvegi, raungengi krónu sem er langt undir sögulegu meðaltali og ferðamannatíma framundan líta stjórnvöld svo á að þau séu nauðbeygð til að grípa til lagasetningar til að halda krónunni uppi.

Greinigin telur því ljóst að núverandi áætlun um afnám hafta sé ótrúverðug og framkvæmd Seðlabankans hafi gert lítið annað en að undirstrika það.

Greining spyr hvað sé til ráða og svarar: "Fyrirsjáanlegt er að ekki er hægt að afnema höftin án verulegrar veikingar sem fæli í sér mikla kaupmáttarskerðingu og eignarbruna, a.m.k. til skamms tíma. Hafi einhvern tímann verið tími til að hugsa út fyrir boxið varðandi gjaldeyrismál þjóðarinnar, er sá tími runninn upp."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×