Viðskipti innlent

Viðskipti með hlutabréf Eimskips hefjast í Kauphöllinni í dag

Í dag hefjast viðskipti með hlutabréf Eimskipafélags Íslands hf. á Aðalmarkaði Kauphallarinnar.

Í tilkynningu segir að Eimskipafélagið flokkast sem meðalstórt félag innan iðnaðargeirans. Eimskip er fimmta félagið sem skráð er á Aðalmarkað innan Kauphallarinnar á þessu ári og annað félagið sem skráð er á NASDAQ OMX Iceland á árinu.

Eimskip rekur nú 49 starfsstöðvar í 17 löndum og er með 17 skip í rekstri. Félagið hefur á að skipa um 1.300 starfsmönnum, þar af um 750 á Íslandi.

„Það er ánægjulegt fyrir okkur starfsmenn Eimskips að hlutabréf félagsins séu nú tekin til viðskipta á NASDAQ OMX Iceland," segir Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips í tilkynningunni.

„Mikill áhugi var á félaginu í útboðinu og er það nú komið í þá dreifðu eignaraðild sem við vonuðumst eftir. Eimskip gegnir mikilvægu hlutverki í flutningum á Norður-Atlantshafi og þeim framtíðarverkefnum sem þar eru í burðarliðnum. Við vonum að skráning félagsins verði mikilvægt framlag til enduruppbyggingar og þróunar hlutabréfamarkaðar á Íslandi."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×