Viðskipti innlent

Hagnaður Landsbankans lækkar um helming milli ára

Afkoma Landsbankans eftir skatt var jákvæð um 13,5 milljarða króna eftir skatta fyrstu níu mánuði ársins 2012. Hefur hagnaðurinn lækkað um helming miðað við sama tímabil í fyrra.

Hagnaður þriðja ársfjórðungs er tæpur 1,7 milljarður króna, mun minni en á fyrri helmingi ársins og skýrist það fyrst og fremst af virðisrýrnun lánasafns og auknum rekstrarkostnaði en hann má rekja að hluta til gjaldfærslu vegna starfsloka í tengslum við hagræðingaraðgerðir.

Fjallað er um uppgjörið á vefsíðu bankans. Þar segir að hagnaður bankans á fyrstu níu mánuðum ársins hefur lækkað um helming frá sama tíma á síðasta ári en þá var hagnaðurinn um 27 milljarðar króna. Afkoma bankans var hins vegar mjög sveiflukennd á árinu 2011 og er því samanburður erfiður.

Arðsemi eigin fjár á fyrstu níu mánuðum ársins 2012 var 8,6% en mældist 17,9% á sama tíma fyrir ári. Eiginfjárhlutfall Landsbankans er nú 24,1% en var 21,4% í lok árs 2011. Fjárhagsstaða Landsbankans er traust en arðsemi af rekstri endurspeglar sem fyrr fremur lítil umsvif í íslensku efnahagslífi.

„Á undanförnum árum hefur staðið yfir mikið uppbyggingastarf innan bankans og flest markmið í því starfi hafa gengið eftir. Áhersla hefur verið á að styrkja fjárhagsstöðu og innviði bankans um leið og unnið hefur verið að úrlausn á skuldavanda heimila og fyrirtækja. Mikill árangur hefur náðst á þessu sviði eins og þróun vanskila sýnir með glöggum hætti," segir Steindór Pálsson bankastjóri á vefsíðunni.

„Afkoma bankans fyrstu níu mánuði ársins einkennist af neikvæðri þróun á virðisbreytingum útlána en að öðru leyti er rekstur bankans á áætlun. Í haust skerpti Landsbankinn á stefnuáherslum sínum og breytti skipulagi til að takast á við þau verkefni sem nú blasa við og tryggja samkeppnisfærni til framtíðar.

Dómar sem fallið hafa á árinu um ólögmæt gengistryggð lán sýna að enn verður bið á endanlegri niðurstöðu í því máli. Mikilvægt er að það skýrist sem fyrst þar sem miklir hagsmunir eru í húfi fyrir alla aðila."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×