Viðskipti innlent

Fitch hækkar lánshæfismatseinkunn Íslands

Matsfyrirtækið Fitch hefur hækkað lánshæfiseinkunn Íslands fyrir langtímaskuldbindingar í erlendri mynt í BBB- úr BB+. Lánshæfiseinkunnin fyrir skammtímaskuldbindingar í erlendri mynt var einnig hækkuð í F3 úr B og einkunnin fyrir lánshæfisþak Íslands í BBB- úr BB+. Lánshæfiseinkunnin BBB+ fyrir langtímaskuldbindingar í innlendri mynt var staðfest með stöðugum horfum. Þetta kemur fram á vef Seðlabanka Íslands.

„Hækkunin á lánshæfiseinkunn Ríkissjóðs Íslands fyrir langtímaskuldbindingar í erlendri mynt í fjárfestingarflokk endurspeglar þann árangur sem náðst hefur frá bankahruninu við að endurheimta stöðugleika í hagkerfinu, framfylgja kerfisumbótum og endurbyggja lánstraust ríkissjóðs. Ísland hefur lokið vel heppnuðu samstarfi við AGS og endurheimt aðgang að alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Vænlegur efnahagsbati er hafinn og endurskipulagning fjármálageirans er vel á veg komin. Auk þess bendir traust áætlun um styrkingu ríkisfjármála til þess að hlutfall ríkisskulda af landsframleiðslu hafi náð hámarki árið 2011" segir Paul Rawkins, framkvæmdastjóri hjá Fitch, í yfirlýsingu sem birtist á vef matsfyrirtækisins.

Fitch segir líka að áhrif Icesave á lánstraust hins opinbera hafi farið minnkandi og Landsbankinn hafi hafið endurgreiðslu á innstæðukröfum. Þrátt fyrir það telji Fitch að Icesave geti enn valdið hækkun á skuldum hins opinbera um 6-13% af vergri landsframleiðslu ef úrskurður EFTA dómstólsins verði Íslandi í óhag. Lausn á Icesave deilunni sé mikilvægt skref í þá átt að koma aftur á eðlilegum samskiptum við erlenda lánardrottna og fjarlægja þennan óvissuþátt úr fjármálum hins opinbera.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×